Ný færðakort á vef Vegagerðarinnar taka við

Mikilvægt er að fylgjast með færð á vegum

Mikilvægt er að fylgjast með færð á vegum

Eitt mikilvægasta verkfærið í upplýsingamiðlun Vegagerðarinnar, kortin með upplýsingum um færð og veður, hafa nú fengið nýtt útlit. Gömlu kortin eru kvödd eftir 20 ára dygga þjónustu en þau voru tekin í notkun árið 1996 og gömlu línuritin örfáum árum síðar.

Á nýju kortunum eru reitir sem birta upplýsingar um hitastig, vindátt, vindhraða, vindhviður og umferð.  Framsetning upplýsinga í þessum reitum er mikið breytt og hún nú orðin grafískari. Sé smellt á reit kemur upp vefsíða með frekari upplýsingum, t.d. daggarmarki, veghita og raka. Vefsíðan birtir einnig línurit yfir upplýsingar frá veðurstöð aftur í tímann. Einnig er hægt að smella beint á vefmyndavélar til að sjá myndir frá viðkomandi stað.

Á nýju færðarkortunum er landið teiknað í þremur grátónum sem mynda litabreytingu á kortunum þar sem hæð nær 200 og 400 metrum yfir sjávarmáli. Á nokkrum vegum hefur vegnúmerum verið bætt við kortin og einnig hefur örnefnum verið fjölgað nokkuð á kortunum. Þá hefur kortum verið fjölgað og eru nú birt kort fyrir miðhálendið og fyrir Reykjavík og nágrenni. Litir sem tákna færð eru nánast þeir sömu og áður. Tákn fyrir aðstæður hafa verið betrumbætt og táknið „Fært fjallabílum“ er nú með mynd af jeppa í stað 4×4 táknsins sem áður var.

Tæknileg högum á framsetningu línuritanna er nú gjörbreytt því í stað þess að birta tilbúnar myndir með línuritum eru nýju línuritin teiknuð í vafra notandans á grundvelli gagna um veður og umferð síðustu sólarhringa. Nýju línuritin hafa m.a. þann eiginleika að þau aðlaga sig að skjástærð notandans.  Einnig birta þau benditexta með ítarupplýsingum þegar notandi fer með mús yfir línuritin eða snertir þau á snjalltæki.

Vegagerðin vonar að þessi nýja framsetning upplýsinga um færð, veður og umferð verði til að auka ánægju vegfarenda með vefinn en á „góðum óveðursdegi“ hafa yfir 80 þúsund notenda nýtt sér vef Vegagerðarinnar.

Nýja kortið má sjá HÉR

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó