Þegar heimsfaraldur geisar og fólki gert að takmarka samgang við aðra og skólahald eldri grunnskólanema og framhaldsskólanema fer fram heima verður skjátími margra enn meiri en áður var og í raun á skjön við þau viðmið sem við setjum alla jafna.
En á tímum sem þessum erum við lánsöm að hafa þessa tækni til að geta haldið áfram vinnu okkar og námi. Margir eru að kynnast nýjum forritum til fjarfunda, íþróttafélög eru með beinar útsendingar af æfingum, félagsmiðstöðvar eru með rafrænar opnanir og allir vinna nú að nýjum lausnum til að létta okkur lífið. Tæknin er himnasending, tölvan, síminn og netið okkar besti vinur.
Það er þó ótalmargt fleira á netinu sem ekki er æskilegt börnum og unglingum, en gera má ráð fyrir því að með auknum skjátíma aukist einnig umferð á netinu almennt og eru klámsíður þar engin undantekning.
Klám er orðið svo algengt að meðalaldur barna þegar þau horfa á klám í fyrsta skipti er 11 ára, og það er samkvæmt íslenskri rannsókn frá árinu 2006, fyrir tíma snjallsímans. Klám er í dag öllum aðgengilegt sem eftir því leita. Það þarf ekki meir en nokkur klikk í símanum og vel valin leitarorð og þú ert búinn að finna það sem þú leitar að og jafnvel því sem þig óraði ekki að væri til. Klámáhorf á heimsvísu er talsvert. Til dæmis eru heimsóknir á algenga vefsíðu klámefnis, pornhub, með margfalt fleiri heimsóknir á hverjum degi en Amazon, Twitter og Netflix samanlagt.
Það er staðreynd að strákar horfa mun meira á klám en stelpur. Í rannsókninni Ungt fólk frá árinu 2018 sem nær til allra unglinga á landinu segjast 78% stelpna í 8-10 bekk á Akureyri aldrei horfa á klám á meðan aðeins 25% stráka á sama aldri segjast aldrei horfa á klám. Tölurnar sýna okkur líka að neysla á klámi eykst jafnt og þétt á unglingsárunum en í 8. bekk segjast 48% stráka aldrei horfa á klám en það hlutfall er komið niður í 16% í 10. bekk. Um 89% stelpna í 8. bekk segjast aldrei horfa á klám og þó það hlutfall breytist þegar komið er í 10. bekk og fleiri horfa á klám þá er enn hátt hlutfall þeirra sem aldrei horfa á klám eða 69%.
Áhrif kláms og tilkoma væntingagjáar milli kynja
Klámnotkun endurvírar heilastarfsemi og breytir hugsun og hegðun þannig að skynsemi fær að fjúka fyrir löngun. Klámneysla getur byrjað eins og önnur neysla, hægt og rólega en vindur svo upp á sig og neytandi fer að sækja í harðara efni en áður. Segjum að við séum með strák sem byrjar 11 ára að horfa á klám og horfir a.m.k. einu sinni í viku til 15 ára aldurs. Það gerir um 208 klámáhorf ef við gerum ráð fyrir því að neyslan haldist stöðug á tímabilinu, en líkur eru í raun að áhorfið sé mun meira. Það þýðir að viðkomandi barn sem nú er orðið að ungling hefur horft á klám a.m.k. 208 sinnum áður en hann jafnvel snertir aðra manneskju kynferðislega. Á sama tíma gætum við haft stelpu sem aldrei horfir á klám en horfir til að mynda mikið á sjónvarps seríur um yfirdrifin ástarævintýri unglinga. Væntingagjáin er því orðin talsverð þar sem við erum komin með einstaklinga á sama aldri með mjög ólíkar hugmyndir um samband og kynlíf.
Hvernig og hvenær á að byrja að ræða við barn um klám og kynlíf
Miðað við forsendur sem niðurstöður rannsókna síðustu ára hafa gefið okkur ættu foreldrar að gera ráð fyrir því að ræða við barnið sitt um klám fyrir 11 ára aldur, hvort sem barnið er stelpa eða strákur. Fyrst og fremst er mikilvægt að ræða virðingu og tillitsemi í samskiptum sem eiga að vera jafn sjálfsögð í kynlífi og í daglegum samskiptum fólks. Í umræðunni um klámið sjálft er þarft að benda á að klám er söluvara gerð í gróðaskyni og að það sem á sér stað í klámi á lítið eða ekkert sameiginlegt með kynlífi í raunveruleikanum. Í klámi er ofbeldi áberandi og niðurlæging og smánun haldið á lofti. Það er því gríðarlega mikilvægt að börn átti sig á því að kynlíf milli einstaklinga þarf að vera með samþykki allra og að borin sé virðing fyrir þeim mörkum sem sett eru.
Það má alltaf gera betur
Febrúar síðastliðinn voru tvö ungmenni beðin um að taka þátt í panelumræðum á málþingi í Hofi undir yfirskriftinni “Í hvaða heimi lifa börnin okkar; karlmennska og klám, viðhorf, áhrif og afleiðingar”. Af máli þeirra þar kom skýrt í ljós að foreldrar tala of seint við börn og unglinga um klám og kynlíf og að fræðsla í skólum komi sömuleiðis of seint, sé of sjaldan og ekki nægilega mikil þegar hún þó er. Þau tala um að þau fái fræðslu um kynferðislegt ofbeldi og breytingar sem fylgja kynþroska en að þau þurfi meiri fræðslu um kynlíf, samskipti og mörk í samböndum.
Vefsíðan www.sjukast.is geymir margar góðar upplýsingar og myndbönd ætluð unglingum og er gott upphaf á mikilvægu spjalli.
Gerum betur, verum meðvituð og verum á undan tækninni þegar kemur að kynfræðslu.
Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar
UMMÆLI