„Nú er ekki tíminn til að slá slöku við“

„Nú er ekki tíminn til að slá slöku við“

Formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands, Viggó Jónsson, setti aðalfund MN sem haldinn var í Hrísey fimmtudaginn 30. maí. Hann fór þar með stutta ræðu sem hefur verið birt á vef Markaðsstofu Norðurlands og hægt er að lesa hér að neðan.

„Síðastliðið ár hefur fyrir margt verið áhugavert í rekstri Markaðsstofunnar og einkenndist af miklu umróti varðandi flugmálin um Akureyrarflugvöll. Niceair hætti starfsemi í apríl eftir tæpt ár í rekstri á flugi til Kaupmannahafnar og Tenerife. Bætt var í flug til Hollands og áætlunarflug hófst til og frá Sviss. Síðast en ekki síst hóf easyJet langþráð flug beint til Norðurlands frá London Gatwick. Á sama tíma setti Icelandair í loftið 5 vikur af tengiflugi um Keflavík sem er mjög mikilvæg tenging fyrir Norðlendinga, ekki síst vegna möguleikans á flugi frá Bandaríkjunum.Vonandi verður framhald á því verkefni.

Markaðsstofan stofnaði Flugklasann Air 66N árið 2011 og hefur unnið sleitulaust að því markmiði að tryggja beint flug um Norðurland með áherslu á vetrarflug og þá sérstaklega frá Bretlandi. Áfangasigur vannst á síðasta ári með flugi easyJet, en þá kom upp sú staða að sveitarfélög drógu til baka fjárhagsstuðning við Flugklasaverkefnið. Í framhaldinu hafa verið miklar umræður um mikilvægi verkefnisins og hvernig næstu skref varðandi beint flug geta orðið. Ljóst er að Flugklasinn er fjármagnaður út árið 2024 en framhaldið er óljóst þrátt fyrir mikil tækifæri varðandi fjölgun fluga og áfangastaða.

Þetta dregur athyglina að mikilvægi samstöðu meðal ferðaþjónustufólks og sveitarstjórnarfólks. Með fullri sanngirni má spyrja sig að því hvort sveitarstjórnir á Norðurlandi eigi að fjármagna flug á Norðurland frekar en sveitarfélögin á suðvestur-horninu greiði til flugverkefna í Keflavík.

Ég geri þá kröfu til yfirvalda að Isavia fjármagni þetta verkefni þannig að Norðurland eigi einhverja möguleika á að vaxa í þjónustu við ferðamenn, þetta getur ekki gengið svona áfram. Það er himinn og haf á milli Norður- og Suðurlands þegar kemur að tækifærum í ferðaþjónustu.

MN hefur markaðssett Norðurland sem eina heild frekar en sem svæðin tvö Norðurland vestra og Norðurland eystra frá stofnun 2003. Þannig hefur náðst mikill árangur, ekki síst í verkefnum þar sem samstaðan hefur verið á milli svæða og samlegðaráhrifin skýr. Þarna má auðvitað nefna Flugklasann en ekki síður samstarf skíðasvæðanna um sameiginlega kynningu,fuglaskoðunarsvæðin sem markaðssett eru undir formerkjum Birding Iceland og Norðurstrandarleið eða Arctic Coast Way. Ferðaþjónustan hefur verið í miklum vexti undanfarin ár en það hefur líka sýnt sig að ekkert er sjálfgefið. Því er samstarfið um þróun verkefna og markaðssetningu gríðarlega mikilvægt enda Norðurland í samkeppni við öflug svæði um allan heim.

Ekki er hægt að tala um árangur síðasta árs án þess að tala um samgöngumál. Staðan á Norðurlandi er ennþá sú að samgöngur á landi styðja ekki við ferðaþjónustu. Okkar helstu náttúruperlur eru lokaðar og óaðgengilegar stóran hluta ársins og veldur skortur á þjónustu vega hættulegum aðstæðum fyrir gesti okkar.

Nú er kominn tími á að bætt verði úr og vegir að Dettifossi og Hvítserk geri þessa stóru segla aðgengilega auk þess sem bæta þarf þjónustu og vetraropnun á fjölda annarra staða. Opnun inn að Öskju er annað stórt mál sem þarf að leysa úr svo ferðaþjónustuaðilar geti aukið verðmætasköpun svæðisins með nýtingu þeirra auðlinda sem til staðar eru.

Við megum aldrei missa sjónar á aðalverkefni MN, að markaðssetja Norðurland sem áfangastað. Með öflugri Markaðsstofu er hægt að halda því starfi áfram og bæta í. Þörfin er til staðar nú þegar útlit er fyrir samdrátt og ekki bara á Norðurlandi heldur landinu öllu.

Bæta þarf verulega í markaðssetningu á Íslandi í heild, nú þegar áskoranir blasa við á borð við eldsumbrot á Reykjanesi og hækkandi verðlag. Ísland hefur áður náð árangri með slíkum aðgerðum og nú er ekki tíminn til að slá slöku við.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó