NTC

NPA bætir lífsgæðin

Sif Sigurðardóttir er höfundur greinar, formaður Þroskahjálpar NE og frambjóðandi Samfylkingar.

Sigrún María er 24 ára Akureyringur sem er að klára sitt annað ár í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Sigrún hefur áhuga á söngleikjum, hún elskar dýr og bækur, finnst gaman að fara í bíó og er mikill náttúruunnandi. Síðustu sumur hefur Sigrún starfað á Hlíð og Lögmannshlíð og í sumar kemur hún til með að vinna hjá Vinnumálastofnun. Hún býr ein í leiguíbúð hjá FÉSTA og hefur gert það í tvö ár. Flott ung kona sem stefnir á að vinna eitthvað tengt sálfræði í framtíðinni.  

Ætla mætti að líf Sigrúnar sé eins oglíf flestra háskólanema; að hún sé ung kona sem tekur þátt í félagsstarfi skólans, mætir á Pub Quiz á fimmtudagskvöldum og lærir með skólafélögum á kvöldin. Því miður er líf hennar ekki þannig. Sigrún þarf að vera komin upp í rúm klukkan 21.30 á kvöldin, sama hvort það sé helgi eða virkur dagur. Einnig þarf hún að vakna klukkan sex alla virka morgna en um helgar fær hún að sofa út eða til klukkan tíu.  

Aðstoð við daglegar athafnir

Hvernig má það vera að 24 ára gömul kona þurfi að vera komin í rúmið svona snemma? Þegar Sigrún var átta ára lenti hún í alvarlegu bílslysi. Hún lamaðist í slysinu og verið í hjólastól síðan. 

Sigrún fær aðstoð frá Akureyrarbæ við nokkrar athafnir daglegs lífs. Heimahjúkrun Akureyrarbæjar aðstoðar hana að fara á fætur á morgnana og heimaþjónusta B mætir stundvíslega öll kvöld vikunnar og aðstoðar hana við að fara í rúmið. Tvisvar í mánuði fær hún einnig aðstoð við þrif. Ef Sigrún hins vegar vill vera lengur á fótum þarf hún að hringja í heimahjúkrun og athuga með fyrirvara hvort það gengur upp en þá verður hún að vaka fram yfir miðnætti. Heimaþjónusta B hættir að vinna kl. 22 á kvöldin og heimahjúkrun er upptekin fram yfir miðnætti og getur því ekki sinnt Sigrúnu fyrr en þá.  

Sigrún María

NPA sjálfsögð mannréttindi

NPA, notendastýrð persónuleg aðstoð, myndi bæta lífsgæði Sigrúnar Maríu heilmikið. NPA samningur myndi gera henni kleift að lifa sjálfstæðara lífi. Hún gæti farið í bíó þegar henni hentar, farið á Pub Quiz eins og flest allir skólafélagar hennar gera reglulega, hitt vinkonur sínar og meira að segja unnið vaktavinnu í framtíðinni. Sigrún myndi velja sér sjálf aðstoðarfólk sem vinnur samkvæmt hennar leiðbeiningum. Hún sjálf myndi ákveða hvaða verk eru unnin, hvaðan aðstoðin er veitt og við hvaða athafnir, heima eða á ferð og flugi í samfélaginu og fengi þannig búsetu-, ferða- og athafnafrelsi. 

Nú er búið að festa NPA í lög og mikilvægt er að ráðast í gerð fleiri NPA samninga sem allra fyrst. NPA á að vera val allra einstaklinga með fötlun. Sigrún á ekki að þurfa að fara í háttinn klukkan 21.30 á kvöldin og hún á ekki að þurfa að vakna klukkan 6 á morgnana, bara vegna þess að kerfið segir það og hefur ekki sveigjanleika til að aðlaga sig að þörfum hennar. 

Tryggjum fötluðum einstaklingum sjálfsögð mannréttindi! Kjósum Samfylkinguna laugardaginn 26. maí.

Höfundur er Sif Sigurðardóttir formaður Þroskahjálpar NE og frambjóðandi Samfylkingarinnar 

Sambíó

UMMÆLI