NTC

Notuð nærhöld í söngleiknum Chicago

Notuð nærhöld í söngleiknum Chicago

Sóley Björk Stefánsdóttir skrifar

Verslanir Rauða krossins við Eyjafjörð eru mikið nýttar af skapandi fólki og til dæmis má nefna að leikfélög hér á svæðinu eru dugleg að leita til þeirra til að fá efni í búninga. Vel er tekið á móti búningahönnuðum, enda þykir deildinni mikilvægt að styðja við menningarlíf á starfssvæðinu, auk þess sem sjálfboðaliðar Rauða krossins njóta góðs af samstarfinu því oft er þeim boðið á lokaæfingu daginn fyrir frumsýningu.

Sjá einnig: „Við erum með heimsklassauppsetningu á frægu leikriti og það er bara ekki sjálfsagt“

Björg Marta Gunnarsdóttir er búningahönnuður söngleiksins Chicago sem nú er sýndur í Samkomuhúsinu við góðar undirtektir. Þegar Björg tekur að sér búningahönnun kaupir hún notað og fær lánað eins mikið og mögulegt er og hefur meðal annars verið dugleg að nýta sér úrvalið í  verslun Rauða krossins á Akureyri. „Það er heilmikið til í búningageymslu leikfélagsins sem hægt er að nýta, eins fékk ég ýmislegt lánað frá Þjóðleikhúsinu en svo fer ég í verslun Rauða krossins og Hertex. Það er síðasta úrræði að kaupa nýtt, þó það sé alltaf eitthvað sem finnst ekki öðruvísi,“ segir Björg.

Björg hannaði einnig búninga fyrir sýningarnar Fullorðin og Skuggasvein hjá Leikfélagi Akureyrar þar sem hún lagði sig einnig fram um að nýta eins og mögulegt var það sem hægt var að kaupa notað eða fá lánað. „Þetta snýst bæði um umhverfið og kostnaðinn fyrir verkefnið,“ segir Björg og bætir við að sjálf hafi hún keypt notuð föt á sjálfa sig frá 16 ára aldri. „Þó oft þurfi að breyta og bæta það sem keypt er notað er það bara eitthvað sem getur á endanum komið betur út en eitthvað sem er keypt nýtt.“

Á hverju ári berast tæplega 200 tonn af fötum í fatagámana á Eyjafjarðarsvæðinu og af því er aðeins lítill hluti seldur innanlands en meirihlutinn er fluttur út til Þýskalands og Hollands til endurflokkunar og áframsölu. Þeim fer þó fjölgandi sem leitast við að kaupa notaðar vörur og það eru sífellt fleiri verkefni þar sem tekið er mið af umhverfissjónarmiðum í innkaupum.

Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir, samfélaginu til góðs. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó