NTC

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 6. Niðurstaða

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 6. Niðurstaða

Sumarið 1942, rétt um hálfu ári eftir komu Ethel Hague Rea til landsins, voru fjórar stúlkur úr ameríska Rauða krossinum í Reykjavík sendar til Akureyrar. Verkefni þeirra var að kanna möguleika á opnun tómstundamiðstöðvar á Akureyri fyrir setuliðsmenn þar og í nágrenni bæjarins. Jane Goodell, Doris Thain, Betsy Lane og Cam voru valdar til verksins.

Jane Goodell segir frá dvölinni á Akureyri í bókinni They Sent Me To Iceland. Erfitt er að meta út frá frásögn hennar hvort þær hafi skemmt setuliðsmönnum í ferðinni. Það kann vel að vera. Hvort sem er, þá þykir mér sennilegt að þarna sé komin skýring á því hvernig nótnahefti Ethel komst til Akureyrar og síðar í hendur Ingimars Eydal. Ég tel í það minnsta líklegra að Jane Goodell hafi haft með sér heftið til Akureyrar en Kathryn Overstreet þegar hún kom hingað til að spila fyrir bæjarbúa í janúar 1944.

Vissulega er ekki hægt að fullyrða nokkuð um hvernig eða hvenær nótnahefti í eigu starfsmanns ameríska Rauða krossins á hernámsárunum komst í hendur Ingimars Eydal. Ég get ekki horft framhjá ýmsum möguleikum öðrum en þeim sem tengjast ferðalögum Rauðakross-kvenna norður yfir heiðar á stríðsárunum. Gæti einhver hafa skilið heftið eftir á Hótel KEA á sjöunda áratugnum? Færði einhver Ingimari heftið að gjöf þegar hann fór suður til að skemmta á níunda áratugnum? Ómögulegt að segja.

Eftir að Ásta Sigurðardóttir vakti máls á dularfulla nótnaheftinu, þótti mér eðlilegt að kanna hvort ég fyndi eitthvað sem styddi það að heftið hefði komið til Akureyrar á stríðsárunum. Fyrir fram hefur nú líklega talist harla ólíklegt að ég hefði erindi sem erfiði. Ég gladdist því yfir fréttum af ferðalagi Kathryn Overstreet til Akureyrar. Ég upplifi hins vegar ákveðna sigurtilfinningu núna þegar ég veit að Jane Goodell kom í bæinn – konan sem sigldi til Íslands með Ethel í janúar 1942 og starfaði með henni innan ARC hér á landi við að skemmta setuliðsmönnum. Hún var stödd á Akureyri sumarið 1942 á meðan Ethel var ennþá við störf hér á landi.

Einhvers konar niðurstaða er komin í málið og ég finn vissan létti þegar ég les síðasta hluta bókarinnar hennar Goodell. Jane, Doris, Betsy og Cam hafa yfirgefið Akureyri og tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið við að koma tómstundaaðstöðu setuliðsmanna í Reykjavík í skikkanlegt horf.

Ég les lýsingar Jane á því hvernig starfskröftum Rauðakross-kvenna var dreift á ólík svæði; „Mary vann hörðum höndum við að koma nýju miðstöðinni í gagnið, Cam hjálpaði til í skólahúsnæðinu, Betty Clark undirbjó komu nýrra Rauðakross-kvenna og Ethel Hague Rea hafði verið send til að vera viðstödd opnun nýju tómstundamiðstöðvarinnar á Akureyri“!!

Skýrara getur það varla orðið. Ethel Hague Rea kom til Akureyrar á stríðsárunum. Og ekki orð að finna um það meir, ekki í bók Jane Goodell og ekki í dagblöðum þessa tíma, hvorki íslensku blöðunum né blöðum sem gefin voru út af setuliðinu. Ég finn ekkert um opnunina sem Jane vísar í og yfirhöfuð ekkert um tómstundamiðstöð setuliðsins á Akureyri. Aðeins þessi tólf orða málsgrein sem hripuð er niður af Jane Goodell; „Ethel Rea had been sent to open the new center at Akureyri.“

Kæra Ásta. Rannsókninni er lokið – í bili. Þó ekkert sé hægt að fullyrða nokkuð um hvernig Ingimar eignaðist heftið, hallast Grenndargralið að því að skemmtikrafturinn og Rauðakross-starfsmaðurinn Ethel Hague Rea hafi komið með heftið sitt í ferð sinni til Akureyrar seinni hluta árs 1942. Hún hafi ekki í eigin persónu afhent það hinum sex ára gamla Ingimari Eydal, sem þó var á þessum tíma hænuskrefum frá því að glamra á píanó á skólaskemmtunum. Hún hafi ekki haft það með sér þegar hún fór aftur til Reykjavíkur – gleymt því, skilið það viljandi eftir eða gefið einhverjum hér. Seinna, eftir að Ingimar var farinn að láta að sér kveða fyrir framan flygilinn hafi nótnahefti sópransöngkonunnar með einhverjum hætti komist í hans hendur – heftið sem framleitt var í Boston 1937 og inniheldur yfir 150 sálma og ættjarðarlög, ferðaðist yfir hafið með SS Borinquen árið 1942 til Íslands ásamt hundruðum hermanna og ellefu Rauðakross-konum og kom um sumarið til Akureyrar með eiganda sínum Ethel Hague Rea. Gersemi í sögu og menningu heimabyggðar.

Brynjar Karl Óttarsson.

Amerískir setuliðsmenn á Íslandi á skemmtun þar sem Jane Goodell kom fram, hugsanlega á Akureyri sumarið 1942. Myndin er úr bók Goodell They sent me to Iceland.

Heimildir:

Grenndargralið.

Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 5. Píanósnillingurinn

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó