A! Gjörningahátíð

Notaður tölvubúnaður úr VMA fær framhaldslíf í skóla í Búrkína Fasó

Notaður tölvubúnaður úr VMA fær framhaldslíf í skóla í Búrkína Fasó

Á síðasta ári var tölvubúnaður í VMA endurnýjaður, fartölvur leystu af hólmi stofutölvur og skjái. Um eitthundrað tölvur, sem var skipt út í VMA, munu síðar á þessu ári fá nýtt hlutverk í skólanum Ecole ABC de Bobo í Bobo-Dioulasso, næststærstu borg Búrkína Fasó í vesturhluta Afríku, þar sem búa um 540 þúsund manns. Þetta kemur fram á vef VMA.

Yfirgripsmikið starf ABC barnahjálpar í Bobo-Dioulasso

Á annan áratug hefur ABC barnahjálp á Íslandi lagt sitt af mörkum við skólastarfið í þessum leik-, grunn- og framhaldsskóla í Bobo-Dioulasso og eru forstöðumenn hans íslenskir, Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir. Þau stýra skólanum og uppbyggingarstarfinu þar í samstarfi við heimafólk. ABC barnahjálp á Íslandi er fjárhagslegur bakhjarl þessa skólastarfs og er það eitt af þeim verkefnum sem ABC barnahjálp á Íslandi styður. Markmiðið með starfi ABC barnahjálpar er að gefa fátækum börnum tækifæri til þess að mennta sig og efla þau og styrkja í lífinu.

Sex manna leiðangur til Búrkina Fasó í janúar sl.

Einir af af þeim fjölmörgu styrktarforeldrum á Íslandi sem hafa lagt þessu starfi ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó lið eru hjónin Jóhanna S. Norðfjörð og Haraldur Pálsson á Akureyri, eigendur pípulagningafyrirtækisins Áveitunnar. Þau hafa farið í sjö ferðir til Bobo-Dioulasso síðan 2015 og lagt starfi ABC lið með ýmsum hætti, bæði í Ecole ABC de Bobo skólanum og utan hans. Í janúar sl. fóru þau þangað niður eftir með fjórum öðrum, feðgunum Adam Ásgeiri Óskarssyni, fyrrverandi kennara og kerfisstjóra við VMA, og Ásgeiri Andra Adamssyni, sem starfar sem pípulagningamaður hjá Áveitunni, Jóni Sverri Friðrikssyni, sjúkraflutningamanni á Akureyri, og áðurnefndum Hinriki Þorsteinssyni. Eitt af stórum verkefnum sem unnið er að í tengslum við skólann er að veita vatni úr borholu út á akra þannig að unnt sé að tryggja ræktun á grænmeti og annarri fæðu allt árið en ekki aðeins á regntímanum, sem er yfirleitt í um þrjá mánuði. Þessu verkefni stýrðu pípulagnamennirnir Haraldur og Ásgeir Andri í þessari ferð í janúar.

Á vef VMA má lesa ítarlega umfjöllunn um málið og spjall við Adam Ásgeir Óskarsson.

VG

UMMÆLI