NTC

Notaðu nefið

Notaðu nefið

Evrópska nýtnivikan er haldin árlega í nóvember. Markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs, nýta hlutina betur og koma þannig í veg fyrir sóun af öllu tagi. Hvort sem það er sóun matvæla, vatns, fatnaðar, rafmagns og svo framvegis. Enda er algjör sóun að sóa. Enginn græðir á því, allir tapa.

Ég fór eitt sinn á fræðsluerindi um matarsóun en það er gríðarlega stórt vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Almennt er talað um að þriðjungur af öllum matvælum sem eru framleidd fyrir mannfólkið endar í ruslinu. Það er eins og að versla þrjá innkaupapoka af mat og henda síðan einum beint í tunnuna. Það er virkilega sorglegt enda er miklum tíma, orku, auðlindum og fjármagni eytt í framleiðslu matvæla. Matarsóun á sér hins vegar ekki einungis stað hjá neytendum heldur á öllum stigum keðjunnar. Við framleiðslu, vinnslu, flutning, sölu og síðan neyslu. Það er því rétt hægt að ímynda sér allan þann mat sem fer til spillis.

Fyrir utan það hve sorglegt er að henda mat þá eru afleiðingarnar einnig slæmar í ljósi loftslagsbreytinga. Skýrsla útgefin af Sameinuðu þjóðunum greinir frá því hvernig stór hluti losun gróðurhúsalofttegunda megi rekja til sóun matvæla. Það er því til ansi mikils að vinna með því að minnka matarsóun. Enda skiptir miklu máli að ofhugsa ekki vandamálið, heldur beina athyglinni að lausnunum. Enda er margt hægt að gera við matarsóun og alltaf er mikilvægast að byrja á sjálfum sér.

Með því að skipuleggja innkaupin er hægt að koma í veg fyrir að matur sé keyptur sem endar með því að skemmast. Mörgum finnst gott að vera með vikumatseðil og gera hann með tilliti til þess hvað er til í skápunum. Þá þarf líka ekki glíma við þá erfiðu spurningu hvert einasta kvöld hvað eigi að vera í matinn.

Margir eru fastir í þeirri hefð að það þurfi alltaf að vera nóg á boðstólum. Hlaðborðið á helst að svigna undan kræsingunum. En það er kannski ekki eins frábært og maður heldur. Margir borða bara yfir sig og svo er stór hluti sem endar í ruslinu. Leyfðu þér að elda aðeins minna magn og ef einhverjir eru enn þá svangir, þá er yfirleitt hægt að grípa sér eitthvað.

Þegar það kemur fyrir að eldað er of mikið magn, hvort sem það er með vilja gert eða ekki, þá er tilvalið að nota afgangana daginn eftir eða skella þeim í frystinn. Bara með því að setja afganga á nýjan disk og skera kannski niður ferskt salat, þá er komin falleg máltíð daginn eftir. Við erum síðan svo heppin að geta fryst matvælin okkar og tekið þau út og borðað þegar okkur hentar.

Mörg matvæli eru með best fyrir eða síðasti neysludagur og skiptir máli að þekkja muninn á þessu tvennu. Síðasti neysludagur lætur okkur vita hvenær er síðasti séns til að neyta vörunnar og er alls ekki ráðlagt að neyta matarins eftir þann tíma. Best fyrir er hins vegar meiri gæðastimpill sem lætur okkur vita hvenær varan er með sem mest gæði. Eftir dagsetninguna er hins vegar óhætt að neyta matarins þó að framleiðendurnir munu ekki tryggja hámarksgæði. Þess vegna er algjör óþarfi að henda vöru þó það sé komið fram yfir best fyrir. Notaðu nefið til að finna hvort maturinn sé farinn að lykta illa.  Smakkaðu svo bara og þú finnur alveg ef eitthvað er ekki eins og það á að vera.

Við höfum mikla stjórn á matarsóun á okkar eigin heimili en það getur verið flóknara á stærri stöðum eins og í mötuneytum, skólum, veitingastöðum, verslunum og fleira. Það er hins vegar alltaf hægt að vera fyrirmynd og koma með tillögur og hugmyndir hvernig megi draga úr matarsóun. Taka afganga heim með sér frá veitingastöðum. Skammta sjálf í mötuneytinu. Endurskoða rétti á matseðli sem lítið er borðað af. Vigta matinn sem er hent og keppast við að draga úr magninu. Fá sér lítið í einu á hlaðborðum og fara frekar oftar. Það er margt hægt að gera, við þurfum bara að byrja. Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.

*save the food, spread the good*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI