Gæludýr.is

Norræn ráðstefna um hjúkrunarfræðimenntun haldin í HA í nóvember

Norræn ráðstefna um hjúkrunarfræðimenntun haldin í HA í nóvember

Sjöunda norræna ráðstefnan fyrir kennara í hjúkrunarfræði (e. Nordic Forum for Nurse Educators 2024) verður haldin af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og NORDPLUS MEDICO dagana 11. til 13. nóvember næstkomandi. Þetta segir í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Ráðstefnan er fyrir kennara, fagfólk og fræðimenn á sviði hjúkrunarmenntunar og kennslu: „Ráðstefnan er vettvangur þar sem hægt er að miðla nýjungum, hugmyndum, reynslu og þróun í hjúkrunarmenntun. Þemað í ár er notkun tækni í menntun hjúkrunarnema,“ segir Þórhalla Sigurðardóttir, aðjúnkt við Hjúkrunarfræðideild og ein skipuleggjenda ráðstefnunnar.

Á ráðstefnunni gefst kjörið tækifæri til bæði starfsþróunar og tengslamyndunar. „Ég hef farið á NFNE ráðstefnu áður og þar gat ég myndað tengsl við samstarfsfólk á mínu sérsviði í hjúkrun. Það er því afar ánægjulegt að fá að halda ráðstefnuna að þessu sinni hér á Akureyri,“ segir Þórhalla.

Ráðstefnunni verður ekki streymt og vonast skipuleggjendur því til þess að sjá sem flesta á Akureyri. Kynnt verða mismunandi sjónarhorn í grunn- og framhaldsnámi í hjúkrun, námsumhverfi, kennslufræði og starfsþróun. Gestum mun meðal annars gefast tækifæri á að skoða hermisetrið við Sjúkrahúsið á Akureyri og þann hátæknibúnað sem notaður er við hermikennslu hjúkrunarnema.

Fjölbreyttir lykilfyrirlesarar

„Við erum sérstaklega ánægðar með lykilfyrirlesarana okkar á ráðstefnunni, en þau koma úr ólíkum áttum en eiga það öll sameiginlegt að hafa nýtt tækni á mismunandi hátt til að miðla kennsluefni til nemenda.“ Fyrirlesararnir koma frá fjórum háskólum og eru eftirfarandi:

  • Helena Sigurðardóttir frá Háskólanum á Akureyri. Hún er kennsluráðgjafi sem hefur sérhæft sig í upplýsinga- og snjalltækni.
  • Hafsteinn Einarsson, dósent frá Háskóla Íslands. Rannsóknir hans fjalla um nýstárlega notkun á gervigreind í menntun.
  • Dr. Katri Manninen frá Karolinska Univerisitet í Stokkhólmi. Rannsóknir hennar fjalla um menntun hjúkrunarnema.
  • Hugrún Ösp Egilsdóttir, lektor frá University of South-Eastern Norway. Hennar sérsvið er hermikennsla hjúkrunarnema.

Áhugasöm geta enn skráð sig á ráðstefnuna hér. Háskólinn bendir á að mörg stéttarfélög veita styrki til þátttöku á ráðstefnum sem þessum.

Sambíó

UMMÆLI