Vegagerðin hefur samið við tvö flugfélög, Norlandair og Mýflug, um innanlandsflug sem boðin voru upp fyrr á árinu. Samið var við Norlandair um flug milli Reykjavíkur og Húsavíkur á tímabilinu 16. desember til 15. mars næstkomandi. Samið var við Mýflug um flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja á tímabilinu frá 1. desember síðastliðnum til 28. febrúar næstkomandi. Í báðum tilfellum verður flogið fjóra daga vikunnar. Mbl.is greindi fyrst frá.
Líkt og Kaffið greindi frá sagði Mýflug upp öllum sínum flugmönnum í haust sökum verkefnaleysis. Flugfélagið hafði þá boðið í báða flugleggina sem hér um ræðir, til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins, vísaði þá sérstaklega til þess að hafa engin svör fengið frá Vegagerðinni hvað þau tilboð varðaði.