NTC

Norðurorka styrkir samfélagsverkefni um 7 milljónir

Föstudaginn 5. janúar úthlutaði Norðurorka styrkjum til samfélagsverkefna og fór athöfnin fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Staðsetningin er vel við hæfi þar sem Norðurorka er og hefur frá upphafi verið öflugur bakhjarl Fab Lab smiðjunnar sem þar er til húsa.

Í október 2017 auglýsti Norðurorka hf. eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna og rann umsóknarfrestur út þann 17. nóvember síðastliðinn. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála.  Markmið með styrkjum Norðurorku er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.

Alls bárust 100 umsóknir frá 87 aðilum (sama félag í sumum tilvikum með umsóknir um fleiri en eitt verkefni).  Flestar umsóknir bárust frá aðilum á starfssvæði Norðurorku sem nær frá Fjallabyggð til Þingeyjarsveitar en einnig komu nokkrar umsóknir annarsstaðar frá. Verkefnin voru fjölbreytt og greinilega mikil gróska í samfélaginu á fjölmörgum sviðum en að þessu sinni hlutu 54 verkefni styrk og var heildarfjárhæð styrkja sjö milljónir króna.

Hér að neðan má sjá mynd sem Auðunn Níelsson tók af styrkþegum eða fulltrúum þeirra að lokinni úthlutun. Einnig má sjá lista yfir þau verkefni sem hlutu samfélagsstyrk Norðurorku árið 2018 á vef Norðurorku hér.

VG

UMMÆLI

Sambíó