NTC

Norðurljós dönsuðu yfir Akureyri í nótt – MYNDIRLjósmynd: Kaffið/RFJ.

Norðurljós dönsuðu yfir Akureyri í nótt – MYNDIR

Ljóðskaldið Margrét Jónsdóttir lofaði fallega landið okkkar í alkunnu kvæði sínu „Ísland er land þitt.“ Í kvæðinu telur hún upp suma af helstu kostum Íslands: Vornóttina björtu, grænu sumrin og bjartsýni íslensku þjóðarinnar. Það var þó sjötta lína kvæðisins sem kom fréttaritara til hugar á kvöldrúnti gærkvöldsins: „Ísland með blikandi norðljósa traf.“

Norðurljósin dansa yfir Hörgárdal

Í gærkvöldi átti sér stað ein besta norðurljósasýning ársins í Eyjafirði og í raun á landinu öllu. Stór sólarstormur átti sér stað sem leyddi til þess að norðurljós sáust víða í Evrópu í gær, en að sjálfsögðu var sjónarspilið öllu magnaðra hér á norðurhveli jarðar. Þar að auki var fullkomlega heiðskýrt yfir Eyjafirði í nótt, svo ský spilltu hvergi fyrir útsýni.

Fréttaritari er sjálfur vanur að kíkja út á rúntinn þegar norðurljósaspá er góð (sjá leiðbeiningar hér) og rekst þá á aðra áhugamenn um ljósin, en sjaldan hefur hann hitt á eins marga og hann gerði í gærkvöldi. Bæði Akureyringar og ferðamenn flykktust út úr bænum til að fylgjast með sýningunni. Bílastæðið á Gásum, sem er vinsæll staður til að fylgjast með ljósunum, var smekkfullt af bílum. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru allar teknar af fréttaritara í Eyjafirði í gærkvöldi.

Þeir sem eru súrir yfir því að hafa misst af sýningu gærkvöldsins þurfa þó ekki að örvænta strax, því norðurljósaspá fyrir kvöldið í kvöld lofar enn góðu.

Þegar norðuljósin eru eins öflug og þau voru í gærkvöldi þá dugar ljósmengun Akureyrar ekki til að drekkja þeim. Þessi mynd er tekin við félagsheimilið Hlíðarbæ, sem er ekki nema u.þ.b. fjóra kílómetra utan við bæjarmörkin.
Myndin er tekin frá Vaðlaheiði
Sambíó

UMMÆLI