Nytjamarkaðurinn og góðgerðarsamtökin Norðurhjálp eiga eins árs afmæli í dag, laugardaginn 26. október. Haldið er upp á tímamótin í húsakynnum samtakanna við Dalsbraut 1 frá klukkan 13 til 18. Á mynd neðst í fréttinni má sjá hvar í húsinu Norðurhjálp er að finna. Ýmis tilboð verða á vörum markaðsins í dag og léttar veitingar á boðstólum.
Norðurhjálp er nytjamarkaður hér á Akureyri sem opnaði dyr sínar í október á síðasta ári. Fjórar konur stóðu að stofnun markaðsins og var það gert í góðgerðarskyni, en allur ágóði af sölunni er nýttur í að styrkja fólk á Norðurlandi sem stendur höllum fæti.
Kaffið fjallaði um Norðurhjálp í sumar þegar markaðurinn opnaði á ný eftir að hafa legið í dvala um nokkura vikna skeið vegna skorts á húsnæði. Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, einn stofnenda markaðsins, ræddi þá við okkur um stofnun hans og starfsemi. Lesa hér:
Í samtali við fréttaritara í þessari viku sagði Sæunn að eftirspurn eftir styrkjum hafi aukist gríðarlega upp á síðkastið. Hún segir Norðurhjálp hafa gefið út styrki upp á 2 miljónir króna í september og að allt stefni í svipaða upphæð þennan mánuðinn.
Þeir sem ekki sjá sér fært að mæta í dag en vilja þó leggja sitt af mörkum er bent á eftirfarandi styrktarreikning:
Kt: 530422-1270
Rn: 0133-26-1270
UMMÆLI