Síðastliðinn þriðjudag var það tilkynnt að norðlenski atvinnuleikhópurinn Umskiptingar er tilnefndur til Grímuverðlauna í flokknum: Sproti ársins, fyrir leiksýninguna Framhjá Rauða húsinu og niður stigann. Umskiptingar er fyrsti atvinnuleikhópurinn á Norðurlandi í seinni tíð og Rauða húsið jafnframt hans fyrsta verkefni. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir hópinn.
Fékk frábærar viðtökur áhorfenda
Leikhópinn skipa þau Birna Pétursdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason, sem léku og skrifuðu verkið, auk Margrétar Sverrisdóttur, sem leikstýrði verkinu, og Jennýjar Láru Arnórsdóttur, sem var framleiðandi. Öll eru þau leiklistarmenntuð og starfa sem listamenn á svæðinu í hinum ýmsu verkefnum. Hljóðmynd verksins var í höndum Axels Inga Árnasonar, Eva Björg Harðardóttir hannaði leikmynd og búninga, Heiðdís Halla Bjarnadóttir sá um grafíska hönnun og Árni Þór Theódórsson sá um alla myndvinnslu.
Framhjá Rauða húsinu og niður stigann var sýnt haustið 2017 fyrir fullu húsi allt sýningartímabilið. Verkið fékk frábæra dóma og viðtökur en það þótti óvenjulegt að því leyti að verkið er einleikur fyrir þrjá leikara.
Skemmtileg sýning um leiðinlegt fólk
„Þú ert svo mikill helvítis lúser, Katrín,“ segir Katrín við sjálfa sig í spegilinn en hún er þjökuð af útlitsdýrkun og lágu sjálfsmati. Katrín er einn af þremur karakterum í sýningunni en öll eru þau ófullkomnir einstaklingar sem reyna að fóta sig í fallvöltum heimi og tekst misvel. Auk Katrínar er persónurnar Hildur, sem heldur að öll vandamál heimsins leysist með samfélagsmiðlum og skyndilausnum og svo Halldór, sem er hræðilegur maður, geðlæknir og hrokagikkur sem reynir að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.
Verkið fjallar um geðheilbrigðismál og ýmis samfélagsvandamál á frumlegan og hispurslausan hátt. „Við höfum lýst verkinu sem skemmtilegri sýningu um leiðinlegt fólk,“ segir Sesselía Ólafsdóttir, einn af höfundum verksins.
Mikill heiður að fá tilnefningu
Hópurinn er með mörg verkefni í farvatninu, m.a. einleikinn Fröken Frú, sem verður frumsýnt 1. september í Samkomuhúsinu ásamt kvikmyndinni Blóðvegur 1 en myndin verður kynnt nánar síðar.
Grímuverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 5. júní í Reykjavík. Hópurinn er eðlilega í skýjunum með tilnefninguna og segja þetta mikla viðurkenningu. „Það hefur ekki verið starfandi atvinnuleikhópur á Norðurlandi um margra ára skeið og það er ómetanlegt fyrir okkur sem viljum starfa sem listamenn í heimabyggð okkar að fá svona viðurkenningu á því sem við erum að gera. Hvað svo sem gerist á athöfninni sjálfri þá erum við afskaplega þakklát fyrir tilnefningu og þær viðtökur sem við höfum fengið. Enda ætlum við að halda ótrauð áfram,“ segir leikhópurinn Umskiptingar um tilnefninguna.
UMMÆLI