Nýverið benti ég systur minni, sem er ári eldri en ég, að nú væri leyfilegt að breyta nafninu sínu að vild og ekkert væri því til fyrirstöðu að við breyttum okkar nöfnum í Nanna og Dísa. Systir mín benti reyndar á þann galla á hugmyndinni að við ættum þegar systur sem væri kölluð Dísa en að öðru leyti væri hugmyndin góð og ætlaði hún að taka þetta til athugunar. En af hverju ættum við að vilja heita Nanna og Dísa en ekki bara Inga og Guðný (sem eru okkar raunverulegu nöfn)?
Jú þegar við vorum litlar stelpur þá fórum við reglulega og jafnvel dag eftir dag í leik sem hét einfaldlega Nönnu og Dísuleikurinn. Í þann leik þurfti ekki nein leikföng, engar snjalltæki og svo sem bara ekki neitt nema ímyndunarafl systranna. Og þar var sko ekkert til sparað. Í heimi Nönnu og Dísu upplifðum við allt sem okkur fannst spennandi, hann innihélt nýjar leikreglur og annað umhverfi en okkar hversdagslega líf en samt fór hann fram í okkar tilveru. Við gerðum allt sem við áttum að gera, fórum í skólann, borðuðum kvöldmatinn og gerðum heimaverkefnin en við vorum bara ekki við, við vorum Nanna og Dísa. Mamma þurfti að kalla okkur þessum nöfnum ef hún vildi ná sambandi við okkur systur og helst að taka þátt í leiknum því að Nanna og Dísa þurftu örlítið öðruvísi meðhöndlun en hinar venjubundnu systur. Nanna sem var „mín“, var afsprengi sveimhugans og miðjubarnsins og því lifði hún afar ævintýralegu og spennandi lífi, ferðaðist um heiminn og átti fráskilda en afar efnaða foreldra. Dísa var skilgetið afkvæmi eldri og skynsamari systur minnar og því var hún jarðbundnari týpa, svolítið smituð af sænskum gildum (okkur fannst allt rosa flott í Svíþjóð) og á þeim bæ voru ævintýrin lágstemmdari. En það kom ekki í veg fyrir að við nytum þess að breytast reglulega í þær stöllur Nönnu og Dísu sem lögðu undir sig líf okkar. Ímyndunarafli okkar voru lítil takmörk sett og við spunnum upp endalaus ævintýri. Sum sögðum við vinum okkar í formi sagna t.d. um æsilegan draugagang heima hjá okkur þar sem fyrri (alsaklausir) íbúar áttu að hafa framið voðaverk á klósettinu og jafnvel urðu til heilir söngleikir með dönsum og söngvum, brotthlaupnum börnum, ófreskjum og hetjum.
Okkar frjói barnshugur átti ómældan efnivið í alla þessa ímynduðu heima því við lásum endalaust mikið. Við lásum allar bækurnar sem foreldrar okkar höfðu lesið, -bækur um allskyns börn um allan heim. Bíbí, Toddu, Öddu, Baldintátu, Nancy Drew, Fimm fræknu, Benna flugmann, Önnu í Grænuhlíð,-megnið af barnabókunum á Amtsbókasafninu og svo unglingadeildina og rómantíska hlutann í fullorðinsdeildinni (ég held að ég hafi lesið Suzie Wong, 30 sinnum). Einstaka sinnum var farið í bíó og það var kannski það sem kveikti neistann í eldsmat bókaheimsins. Í bíó kom liturinn og ekki hvað síst tónlistin með í líflegt ímyndunarbálið.
Við vorum kannski ekkert mjög sigldar systurnar og þekktum lítið hinn stóra heim. Við vissum auðvitað að þar gekk ýmislegt á en öryggið okkar var algjört og takmarkalaust og kannski þess vegna var óhætt að ímynda sér hvað sem var. Í barnslegu sakleysi.
Við vorum auðvitað heppnar, það var enginn sem rændi okkur þessu sakleysi. Við fengum að alast upp við það að trúa á það sem var talið gott og göfugt í okkar litla heimi, en þá eins og nú, voru það forréttindi. Og auðvitað eru fullt af börnum sem njóta þessara forréttinda í dag. Börn sem fara í sjóferð í pappakassa á stofugólfinu og baka súkkulaðikökur úr mold og vatni. Börn sem lesa bækur og fara í fjöruferðir.
En áreiðanlegra er það mun flóknara að vera barn í heiminum í dag. Að takast á við öll þau áreiti sem tæknivæddari veröld hefur í för með sér, miklu meiri hraða á öllu og öllum, og ekki hvað síst meiri hættur og nálægari en þegar Nanna litla og Dísa voru að skoppa um á Akureyrinni. Í heimi sem hentar ekki vel viðkvæmum og dreymnum börnum. Heimi þar sem bókasöfnum er lokað vegna lítillar notkunar.
Visslega er margt svo miklu betra fyrir börn í víðsýnna og upplýstara nútímasamfélagi. Og vonandi heldur það áfram að verða bara betra. En við megum líka alveg hugsa til fyrri tíma, muna eftir ímyndunaraflinu, einfaldleikanum og því sem var gott í samfélaginu á síðustu öld. Hampa lestri, bókum, bókasöfnum, ævintýrum og öllu því sem glæðir hugsanir og ímyndun barna og fullorðinna.
Allar kynslóðir eiga minningar um dásamlega hluti sem er mikilvægt að deila með komandi kynslóðum. Veljum vel fyrir börnin okkar og leyfum alltaf Nönnum og Dísum tilverunnar að blómstra.
UMMÆLI