Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að nokkur dæmi séu um mistök við rukkun í Vaðlaheiðargöngunum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Áslaug Jónsdóttir, bókverkakona, segir í viðtali við Morgunblaðið að hún hafi verið rukkuð fyrir tvær ferðir í gegnum göngin þrátt fyrir að hafa bara farið einu sinni.
„Það var þarna snjór og slabb og tölvan las vitlausan staf í bílnúmerinu og taldi það mitt,“ segir Áslaug.
Hún segir að fljótt og vel hafi verið brugðist við kvörtun hennar og rukkunin hafi verið felld niður.
„Þetta er ekki óþekkt vandamál í búnaði sem þessum. Við erum með tvær mismunandi vélar og ef þær lesa ekki sama númerið reynum við að bera saman og leysa úr því,“ segir Valgeir Bergmann um málið í Morgunblaðinu.