Það er með þessi blessuðu „ef“ og „hefði“ í samtölum fólks. Orðin tvö leyfa okkur að leika okkur með eitthvað sem varð ekki en hefði mögulega orðið ef eitthvað hefði farið á annan veg en það gerði. Ef Einar hefði keypt Reykhús eins og hann hafði áhuga á og fengið Nóbelsverðlaunin eins og vonir stóðu til…ja, þá hefði fyrirsögnin hér að ofan átt við rök á styðjast.
Hér skulum við bakka örlítið og gera langa sögu stutta. Hallgrímur Kristinsson fæddist á bænum Öxnafellskoti í Eyjafirði árið 1876. Eftir að hafa stundað nám og hin ýmsu störf í heimabyggð giftist hann Maríu Jónsdóttur. Sama ár og þau gengu í hjónaband, árið 1902, hófu þau búskap á jörðinni Reykhús í Hrafnagilshreppi þar sem þau voru með búskap til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri. Einn af kunningjum Hallgríms var hinn kunni rithöfundur Einar H. Kvaran. Þeir voru einnig tengdir fjölskylduböndum þar sem mágkona Hallgríms var hálfsystir Einars. Árið 1913 skrifaði Einar leikritið Lénharður fógeti sem Leikfélag Akureyrar tók til sýninga árið eftir. Með hlutverk fógetans fór Hallgrímur Kristinsson og fórst það vel úr hendi ef marka má leikhúsgagnrýni í dagblaðinu Norðurlandi (9. tbl. 28.02.). Árið 1928 skrifaði Einar söguna Reykur og ári síðar söguna Hallgrímur. Er það kannski til marks um tengsl hans og Hallgríms í Reykhúsum?
Á árunum 1915-1917 dvaldist Hallgrímur í Kaupmannahöfn vegna starfa sinna fyrir SÍS. Á þeim tíma var hann farinn að hugsa sér til hreyfings, frá Reykhúsum til Akureyrar. Hann íhugaði að selja Reykhús og flytjast búferlum ásamt Maríu sinni og börnunum fjórum. Í einu af fjölmörgum bréfum sem Hallgrímur skrifaði heim frá Kaupmannahöfn nefnir hann áhuga Einars H. Kvaran á að festa kaup á jörðinni. Árið 1923 bárust fréttir frá Svíþjóð þess efnis að Einar kæmi til greina sem næsti handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels. Komið væri að Íslandi að eignast einn slíkan og Einar væri efstur á blaði af íslenskum rithöfundum. Nokkru síðar fékkst staðfest að nafn Einars væri á borði sænsku akademíunnar. Ekkert varð þó af því að eigandi Reykhúsa í Eyjafirði hlyti Nóbelsverðlaun því hvorki hafði Einar efni á jörðinni þegar á reyndi né hlaut hann Nóbelsverðlaunin.
Þó Nóbelsverðlaunahafinn Einar hafi ekki gengið um grasi grónar brekkurnar í Reykhúsum og Kristnesi á árum fyrra stríðs gerði annar verðandi Nóbelsverðlaunahafi það í aðdraganda seinna stríðs. Árið 1937 heimsótti Halldór Laxness berklasjúklinga á Kristneshæli. Ári síðar lést Einar H. Kvaran. Sextíu ár liðu áður en Halldór fór á fund feðra sinna. Við gerð bókar um líf berklasjúklinga á Kristneshæli – Í fjarlægð – sem kom út árið 2017 fundust óvænt heimildir í rykföllnum pappakassa sem gefa til kynna kunningsskap Nóbelsskáldsins við íbúa í Kristnesþorpi á seinni hluta 20. aldarinnar. Svo virðist sem sú vinátta hafi varað um áratuga skeið. Það er efni í sérstaka umfjöllun.
Ætla má að vistmönnum á Kristneshæli hafi fundist mikið til heimsóknar Laxness koma árið 1937. Eða hvað? Ítarlegri umfjöllun má finna á heimasíðu Grenndargralsins.
Brynjar Karl Óttarsson
UMMÆLI