Nígeríumenn þoldu illa kuldann – Hvað gera Íslendingar í hitanum?

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Landslið Íslands fyrir leik gegn Wales í október 1981.

Fyrsti og eini A-landsleikur Íslands og Nígeríu í karlaflokki fór fram á Laugardalsvelli árið 1981. Í byrjun ársins voru Nígeríumenn nr. 32 á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins á meðan Íslendingar voru í sæti nr. 89. Þó knattspyrna í Afríku hafi ekki verið eins hátt skrifuð árið 1981 og seinna varð raunin, voru Nígeríumenn með nokkuð frambærilegt lið. Liðið hafði t.a.m. unnið Afríkubikarinn árið 1980. Leikurinn við Ísland var hluti að röð æfingaleikja í Evrópu en á þessum tíma var Nígería í harðri baráttu heima fyrir um laust sæti á HM á Spáni sumarið 1982. Nokkrum dögum áður en liðið kom til Reykjavíkur hafði það gert jafntefli 2-2 við Norðmenn í Osló og tapað 0-2 fyrir Sheffield Wednesday í Englandi. Leikurinn gegn Nígeríu var liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir mikilvægan leik gegn Tyrkjum í undankeppni HM í september á Laugardalsvelli. Íslendingar höfðu síðast landað sigri á þjóðarleikvanginum árið 1977 þegar kom að leiknum gegn Nígeríu.

Landslið Nígeríu sem vann Afríkubikarinn árið 1980.

Aðstæður voru afar slæmar þegar dómarinn flautaði til leiks laugardaginn 22. ágúst. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi setti veðrið strik í reikninginn. Kuldi, rigning og ekki fluga á ferð, slíkt var hvassviðrið. Elstu menn í bransanum í Laugardalnum sögðu veðrið hið versta í sögu knattspyrnuiðkunar á Laugardalsvelli eins og því var háttað hálftíma fyrir leik. Þá olli fjarvera Nígeríumanna áhyggjum þegar aðeins hálftími var til leiks. Þeim leist svo illa á veðrið að þeir lögðu ekki af stað frá hótelinu fyrr en 25 mínútum fyrir leik. Þrátt fyrir veðrið og óstundvísi gestanna hófst leikurinn á réttum tíma. Skemmst er frá því að segja að Íslendingar fóru með öruggan sigur af hólmi. Lokatölur leiksins 3-0. Mörk Íslendinga skoruðu þeir Árni Sveinsson, Lárus Guðmundsson og Marteinn Geirsson. Nígeríumenn þoldu illa kuldann. Þeim tókst ekki að aðlagast framandi aðstæðum á Laugardalsvelli. Vissulega hafði veðrið áhrif á leik beggja liða en án nokkurs vafa kom það meira niður á gestunum. „Það er ekki hægt að leika knattspyrnu í slíku veðri. Íslensku leikmennirnir kunnu betur að notfæra sér aðstæður og það réði úrslitum“ sagði þjálfari Nígeríumanna eftir leikinn.

Ólíklegt er, að Nígeríumenn hafi nokkurn tíma leikið knattspyrnu í slíku veðri sem á laugardaginn var, og eflaust leika þeir betri knattspyrnu við betri skilyrði. Þó er ljóst að þeir eru eftirbátar okkar í íþróttinni, en hversu lengi það verður skal ósagt látið. Við skulum vona að Nígeríumenn taki úrslitunum ekki of illa, en sumir áhorfendur töldu að skreiðarsamningar okkar við Nígeríu yrðu e.t.v. ekki endurnýjaðir.“

Þjóðviljinn, ágúst 1981

Sigurður Lárusson.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum fyrsta landsleik gegn Nígeríu fyrir 37 árum. Öllum er ljóst að bilið milli liðanna er annað og minna í dag en árið 1981, um það bera tölur frá styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins glöggt vitni. Þjóðirnar mætast nú öðru sinni á föstudaginn kemur í Rússlandi. Rétt eins og 22. ágúst gæti veðrið orðið örlagavaldur 22. júní. Spáð er allt að 35 stiga hita með tilheyrandi flugnageri. Ólíklegt er að Íslendingar hafi nokkurn tímann leikið knattspyrnu í slíku veðri. Hvað gera Íslendingar í hitanum? Munu aðstæður ráða úrslitum? Nú leggjumst við á bæn og vonum að íslenska liðinu takist að aðlaga sig framandi aðstæðum á knattspyrnuvellinum í Volgograd og nái í þrjú stig. Áfram Ísland!

Eins og gjarnan vill verða þegar landslið Íslands eru valin kom heimabyggð við sögu í leiknum á Laugardalsvelli árið 1981. Akureyringur spilaði sinn fyrsta opinbera landsleik þegar Sigurður heitinn Lárusson kom inn á fyrir Ómar Torfason.

Blaðaljósmyndir úr leiknum á Laugardalsvelli má sjá á hér á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó