NTC

Niðurrif BSO frestað fram á haust

Niðurrif BSO frestað fram á haust

Bifreiðastöð Oddeyrar, betur þekkt sem BSO hefur fengið frest til 1. október þessa árs til að fjarlæga húsnæði sitt við Strandgötu. Margrét Imsland, framkvæmdarstjóri BSO, segir enga lausn í sjónmáli þessa stundina.

Fyrirhugað var að húsið yrði fjarlægt fyrir 1. apríl þessa árs vegna uppbyggingar á svæðinu. Málið vandast þó þar sem engin framtíðarstaðsetning hefur fundist og er fyrirtækið í ákveðinni pattstöðu, líkt og Margrét orðar það. Margrét segir stöðuna erfiða og súrt að bærinn ætlist til þess að húsið verði rifið á kostnað fyrirtækisins og það skuli hverfa á brott bótalaust. Hún segir vilja fyrir því að færa fyrirtækið en engar hentugar staðsetningar virðast koma til greina. Nú þegar hefur mikill lögfræðikostnaður verið lagður í málið.

Margrét segir stöðina sinna hinum ýmsu verkefnum og fólk sæki hana í ýmsum tilgangi. Þá hefur stöðin m.a. gegnt ákveðnu starfi sem upplýsingaveita fyrir ferðamenn eftir að upplýsingamiðstöðin lokaði. Því er starfsemin mikilvæg og draumsýnin sú að sett verði upp einskonar samgöngumiðstöð þar sem helstu samgöngufyrirtækin byðu upp á þjónustu sína á sama bletti.

Nokkuð hefur fækkað um virk stöðuleyfi á BSO á síðustu árum en heimsfaraldurinn á sinn þátt í þeirri fækkun. Eins hefur reynst erfitt að fá fólk til að vinna í afgreiðslunni. Margrét segir mikilvægt að þetta breytist og að starfsfólk finnist í afgreiðslu og til að keyra leigubíla.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó