Á næstu dögum munu Neytendasamtökin opna skrifstofu á Akureyri, í Alþýðuhúsinu við Skipagötu. Frá þessu er greint á heimasíðu samtakanna í dag. Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi alþingismaður Bjartrar framtíðar og oddviti flokksins í Norðausturkördæmi, verður í forsvari fyrir skrifstofunni. Hún mun einnig ritstýra Neytendablaðinu og hafa umsjón með heimasíðu samtakanna.
Brynhildur sat í stjórn samtakanna áður en hún tók sæti á Alþingi. Brynhildur sat á þingi fyrir Bjarta framtíð í Norðausturkjördæmi frá 2013 til 2016 og var formaður þingflokksins frá 2015 til 2016. Eins og Kaffið greindi frá hætti hún í flokknum á dögunum.
Sjá einnig: „Skipulagsleysið á Alþingi fer mikið í taugarnar á mér“
Neytendasamtökin ráku um árabil skrifstofu á Akureyri en henni var lokað fyrir nokkrum árum. Í yfirlýsingunni á heimasíðu samtakanna er það sagt mikið ánægjuefni að þær aðstæður hafi skapast að samtökunum gerist kleift að opna að nýju skrifstofu á Akureyri.
Þar er einnig lýst mikilli ánægju með þann liðsstyrk sem Brynhildur er. „Brynhildur er þessa dagana að koma sér fyrir á nýju skrifstofunni og fljótlega verður greint frá opnunartíma á Akureyri á heimasíðu samtakanna.
Brynhildur Pétursdóttir hefur mjög góða yfirsýn yfir málefni og hagsmunamál neytenda. Hún býr yfir umfangsmikilli reynslu bæði af vettvangi Neytendasamtakanna og á Alþingi Íslendinga. Hún er öflugur liðsmaður í baráttunni fyrir réttindum og hagsmunum neytenda.“
UMMÆLI