Ég rakst á ansi áhugaverða frétt um daginn sem fjallaði um umhverfismál. Eins og margir vita hef ég áhuga á þeim málaflokki og geri mitt besta til að lifa umhverfisvænum lífstíl. Stundum finnst mér hins vegar allt vonlaust og engu breyta hvort ég endurvinn mjólkurfernuna. Þá reyni ég að minna mig á að allt telur og skipti yfir í jákvæðisgírinn. Það er ekki nóg með að ég flétti umhverfismálum í minn lífstíl heldur reyni ég að hafa áhrif á fólkið í kringum mig, bæði með því að sýna fordæmi og síðan deila fróðleik. Það er nú þess vegna sem ég ákvað að skella í þennan stutta pistil.
Fréttin sem ég nefndi hér í upphafi var á vef Rúv og var fyrirsögnin ,,Hver Íslendingur hendir 2 kílóum á dag”. Hún fjallar sem sagt um það magn sem hver einasti Íslendingur, stórir sem smáir, hendir af rusli á hverjum einasta degi. Og 2 kíló er nú ekkert smá! Það er bæði vegna þess að við erum ekki nógu dugleg að endurvinna en líka af því að neyslan er mikil. Og það síðarnefnda er kannski meira vandamál heldur en endurvinnslan. Við Íslendingar erum þekkt fyrir kaupæði okkar og væri jörðin eflaust ónýt ef allir jarðabúar lifðu eins og við.
Gott dæmi er Costco, h&m, verslunarferðir til útlanda, kaupæði á netinu og hangs í verslunarmiðstöðum í frítímanum. Við erum með einkenni kaupalkans, við fyllumst gleði þegar við fjárfestum í einhverju nýju en hún endist stutt og þá þurfum við að versla meira. En þurfum við virkilega allt þetta dót? Erum við ekki flest með margar skúffur fullar af drasli? Geymsluherbergi með fullum kössum af dóti? Og ég tala nú ekki um bílskúra eða kjallara. Við högum okkur eins og litlir hamstrar nema í stað þess að hamstra mat, hömstrum við dóti. Þetta er hegðun sem við verðum að breyta til að minnka sorpmagnið og hugsa betur um jörðina okkar. Og jákvæði punkturinn við þetta er sparnaðurinn.
Lokapunkturinn minn er því að við ættum að neyta minna og neita meira. Það er að segja minnka neysluna og neita því að taka þátt í kaupæði Íslendinga. Breytum saman hegðun okkar og verðum frekar þekkt fyrir að vera umhverfisvæn þjóð sem hugsar vel um náttúruna.
*When we heal the earth, we heal ourselves*
UMMÆLI