Neyðarsöfnun Rauða krossins

Neyðarsöfnun Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir þolendur jarðskjálftanna í Mjanmar. Mikið mannfall varð í hamförunum og vinna viðbragðsaðilar, m.a. Rauði krossinn, í kapphlaupi við tímann að því að bjarga fólki úr rústum bygginga. Tala látinna er í dag komin yfir 1.600 og talið víst að hún komi til með að hækka.

Stærsti skjálftinn sem reið yfir í gærmorgun, var 7,7 stig og fylgdi fjöldi eftirskjálfta í kjölfarið. Gríðarleg eyðilegging blasir við og innviðir eru í lamasessi. Vegir hafa farið í sundur, fjarskipti liggja niðri á mörgum svæðum og rafmagnsleysi er útbreitt.

Við þessar erfiðu aðstæður eru viðbragðsaðilar, m.a. sjálfboðaliðasveitir Rauða krossins, að störfum. Rauði krossinn í Mjanmar er á hamfarasvæðunum og sveitir frá nágrannalöndum eru einnig komnar til landsins. Fleiri hafa verið kallaðar út.

„Við Íslendingar þekkjum af eigin raun þá ofsafengnu krafta sem leysast úr læðingi í stórum jarðskjálftum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Skjálftinn sem varð í Mjanmar í gærmorgun var af slíkri stærðargráðu að hann lagði stórt svæði í rúst, í landi þar sem innviðir voru veikir fyrir. Mannfall er mikið og utanaðkomandi aðstoð lífsnauðsynleg.“

 Neyðarsöfnun Rauða krossins sem nú er hafin miðar að því að þolendur hamfaranna fái þá nauðsynlegu bráðaaðstoð sem þeir sárlega þarfnast.

 Hér er linkur á söfnunina: https://www.raudikrossinn.is/styrkja/neydarsofnun/

Sambíó
Sambíó