Neyðarkall frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis

Neyðarkall frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis leitar nú leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur þjónustumiðstöðvar, en erfiða fjárhagsstöðu félagsins má rekja til efnahagslegra áhrifa Covid-19. Þrátt fyrir sparnaðaraðgerðir sér stjórn félagsins ekki fram á að standa af sér áframhaldandi efnahagslega óvissu.

Starf félagsins byggir alfarið á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja auk þess sem félagið nýtur stuðnings Krabbameinsfélags Íslands, m.a. í gegnum Velunnarasjóð. Það sem af er ári hefur dregið verulega úr styrkveitingum frá einstaklingum og fyrirtækjum auk þess sem stórar fjáraflanir eins og Hrúturinn, Gæfuspor og Reykjavíkurmaraþon hafa ekki skilað inn áætluðum tekjum. Er það rakið til efnahagsástæðna í samfélaginu ásamt fjöldatakmarkanna vegna Covid-19. Framundan eru Dekurdagar á Akureyri, frábært framtak verslunareigenda í bænum, sem hafa styrkt félagið myndarlega síðustu ár og bindur félagið vonir við að söfnunin gangi vel í ár.

Þjónusta á vegum félagsins

Félagið rekur þjónustumiðstöð fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra að Glerárgötu 34 á Akureyri. Þjónustan telur m.a. til viðtala við fagaðila skjólstæðingum að kostnaðarlausu, með áherslu á stuðning og fræðslu. Einnig er boðið upp á námskeið og tvisvar í viku er opið hús fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein. Félagið sinnir auk þess fræðslu og forvörnum ásamt því að vera málsvari fyrir krabbameinsgreinda á svæðinu. Þjónusta og sérfræðiþekking innan félagsins er einstök og sambærileg þjónusta er ekki til staðar innan heilbrigðiskerfisins á svæðinu. Félagið er mikilvægur hlekkur í bataferli krabbameinsgreindra auk þess sem áhrif Covid-19 á skjólstæðinga félagsins eru margþætt og því mikilvægt að þeir geti leitað áfram til félagsins.

Mikilvægi starfseminnar – ákall til samfélagsins

Einn af hverjum þremur íslendingum fær krabbamein einhverntímann á lífsleiðinni og tveir af hverjum þremur eru aðstandendur. Starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis hefur vaxið ört á undanförnum árum með aukinni þjónustu og bættri aðstöðu fyrir skjólstæðinga. Vegna þeirra ófyrirsjáanlegu aðstæðna sem heimsfaraldur hefur valdið mun núverandi rekstrarfé félagsins vera uppurið í lok febrúar 2021 með tilheyrandi skerðingu á þjónustu á svæðinu.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur þegar leitað til Akureyrarbæjar og annarra sveitarfélaga um fjárhagslegan stuðning til þess að þjónustan geti haldið áfram í óbreyttri mynd í heimabyggð. Akureyrarbær og Fjallabyggð hafa hafnað þeirri beiðni. Félagið biðlar því nú til fjársterkra aðila á svæðinu að svara kalli félagsins um aðstoð.

Fyrir hönd Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, 
Marta Kristín Jónsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó