Samkaup hefur gert samning við KSK eignir ehf. um leigu á Vallholtsvegi 8 á Húsavík, þar sem ný Nettó verslun mun rísa. Mbl.is greindi frá.
Nýja verslunin, sem verður um 1.400 fermetrar, mun leysa af hólmi núverandi Nettó, sem hefur verið talin of lítil. Áætluð afhending húsnæðisins er á tímabilinu 2028 til 2030.
„Við höfum um langt skeið leitað lausna á verslunarmálum á Húsavík. Núverandi húsnæði Nettó verslunar er of lítið og þröngt og því er þessi lausn afar ánægjuleg. Nú tekur við frekari hönnun og skipulag og innan fárra ára mun Nettó opna glæsilega verslun að Vallholtsvegi 8,“ er haft eftir Gunnari Agli Sigurðssyni forstjóra Samkaupa.
Brynjar Steinarsson, framkvæmdastjóri KSK eigna, segir einnig að Vallholtsvegur 10 muni fá andlitslyftingu, og að svæðið verði að verslunar- og þjónustumiðstöð. Samhliða þessu hafa áform um byggingu verslunarkjarna í útjaðri bæjarins verið lögð til hliðar.