Nemendur VMA keppa til úrslita um besta frumkvöðlafyrirtækið

Þrjú verkefni nemenda af viðskipta- og hagfræðibraut VMA tóku þátt í Vörumessu 2017.  Þar voru kynnt voru frumkvöðlaverkefni 63 örfyrirtækja sem um 300 framhaldsskólanemar af öllu landinu stóðu að. Af þessum 63 verkefnum hafa nú 15 fyrirtæki verið valin í úrslit keppninnar um besta frumkvöðlafyrirtæki ársins. Eitt þessara fyrirtækja er úr VMA og nefnist Ferðafiskur.

Á vef VMA segir að upphaflega hafi hugmynd forsvarsmanna Ferðafisks gengið út á að selja og heimsenda harðfisk. Síðan hafi hugmyndin þróast og niðurstaðan varð sú að bjóða til sölu frosinn þorsk í blokkum. Í framhaldinu fór Ferðafiskur í samstarf við Samherja og þorskpakkningar, 2,2 kg að þyngd, voru í boði fyrir kaupendur á Akureyri. Áður en farið var af stað með þróun hugmyndarinnar unnu nemendur markaðsrannsókn í gegnum Facebook og niðurstaða svörunar úr þeirri rannsókn var á þann veg að bjóða upp á þorsk.

Úrslitin fara fram í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 26. apríl. Það lið sem vinnur keppnina fer sem fulltrúi Íslands í Evrópukeppni ungra frumkvöðla sem verður í Belgíu í sumar.

Mynd: vma.is

Sambíó

UMMÆLI