Góðgerðavika Menntaskólans á Akureyri hefur gengið framúrskarandi vel en markmið nemendanna var að safna einni milljón króna til styrktar Aflsins, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.
Í vikunni stóðu nemendur fyrir allskonar gjörningum og viðburðum til að ná þessu markmiði. Stærsti gjörningurinn, og jafnframt sá síðasti, er hópur nemenda sem gengur yfir Vaðlaheiði í dag. Nemendurnir, sem eru sextán talsins, lögðu af stað kl. 10 í morgun í Fnjóskadalnum og fengu björgunarsveitarmenn með sér í för svo þau kæmust örugglega leiðar sinnar. Nemendurnir skiptast á að bera börur frá björgunarsveitinni á leið sinni, með ígildi líkamsþyngdar manneskju.
Mjög kalt, hvasst og hált
Leiðin er nokkuð greið en þó er talsvert hált á heiðinni. Mjög kalt er í veðri og nokkuð hvasst en þau láta það ekki á sig fá. Líklegt er að göngunni ljúki seinnipartinn í dag en áætlað er að gangan taki 6-8 klukkustundir. Göngunni lýkur á Sjúkrahúsinu á Akureyri og markar þá einnig lok Góðgerðarvikunnar í Menntaskólanum á Akureyri.
Í spilaranum á neðan má fylgjast með nemendum á göngunni en þau eru í beinni útsendingu á Facebook, þegar netsamband á heiðinni leyfir.
Hægt er að styrkja söfnunina með að leggja inn á reikning:
Kennitala. 470997-2229 og reikningsnúmer. 0162-05-261521.
Þetta er í annað skipti sem góðgerðarvikan er haldin en í fyrra styrkti nemendafélag Menntaskólans á akureyri Geðdeild SAk um rúma milljón króna. Þá fóru nemendur einnig frumlegar leiðir í styrktarsöfnunum en þá voru nokkrir nemendur sem ýttu bíl á undan sér allan Eyjafjarðarhringinn, sem er um 30 kílómetra leið.
UMMÆLI