NTC

Nei takk við Bókun 35

Nei takk við Bókun 35

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Miklar væringar hafa verið um svokallaða Bókun 35 sem utanríkisráðherra lagði fram á þinginu. Kannski ekki að ósekju. Þegar kafað er dýpra í málið sést að litu má muna að við framseljum ekki vald okkar til Evrópusambandsins sem virðist sópa til sín völd og ákvörðunarrétt.


Við skulum lesa þetta vel því í fylgiskjali ráðherra segir að hér sé um breytingar eða nýungar að ræða ,,Lagt er til að þegar lög sem byggja á EES-samningnum stangast á við önnur almenn íslensk lög, þá skulu hin fyrrnefndu ganga framar, nema Alþingi hafi ákveðið annað. Lagt er til að hið sama skuli gilda um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“ Hin fyrrnefndu í þessu samhendi er EES samningurinn sem er beintengdur inn í ESB.


Formaður Lýðræðisflokksins, Arnar Þór Jónsson, sendi inn umsögn við umrædda breytingu og í henni segir ,, Frumvarpið er afsprengi hugmynda sem sl. áratugi hafa í auknum mæli rutt sér til rúms hér á landi og miða í reynd að umbyltingu í stjórnarfari og stjórnskipun Íslands. Til að átta sig á þessu verðum við að skilja hvað ESB er í raun. Þáttur í því er að kunna skil á sögu ESB.“ Þar liggur hundurinn grafinn, almúginn kynnir sér ekki sögu ESB og hvað hangir á spýtunni fyrir fólkið í landinu. Við, hinn almenni Íslendingur, höfum fram til þessa treyst stjórnmálamönnum fyrir málum landsins. Auðvitað með misgóðum árangri.


Í umsögn Arnars Þórs á Bókun 35 bendir hann á að Alþingi Íslendinga hafi verið gengisfellt sem löggjafarstofnun og grafið hefur verið undan lýðræðislegu aðhaldshlutverki almennra kjósenda. Verði frumvarpið um bókun 35 að lögum mun það marka ákveðinn endapunkt.


Arnar Þór er alls ekki sá eini sem hefur haldið uppi mótmælum vegna Bókunar 35. Hvet fólk til að kynna sér mótmælin.


ESB gleypir okkur

Almúginn verður að standa með þeim flokki sem hafnar Bókun 35 því ljóst er að Þórdís Reykfjörð utanríkisráðherra ætlar sér að koma henni í gegnum þingi nái hún meirihluta til þess. Íslendingar eiga aldrei að láta af hendi löggjöfina og hvað þá lýðræðislegu aðhaldshlutverki kjósenda.


Arnar Þór segir í umsögn sinni ,, Á vef Alþingis má sjá – og það hefur skrifstofa þingsins staðfest – að um fimmtungur stjórnarfrumvarpa á 151. löggjafarþingi var upprunninn í ESB, þá er átt við fjölda en hvorki tekið tillit til umfangs eða mikilvægi, sem þess vegna gæti verið miklu stærra hlutfall – þótt erfitt kunni að vera að meta/mæla nákvæmlega.“ Það er ekki góð tilhugsun að ákvörðunarvald um Ísland og Íslendinga hafni í útlöndum. Gæti auðveldlega gerst ef við pössum okkur ekki. Því skiptir máli hver situr á löggjafarþingi Íslendinga.


Helga Dögg Sverrisdóttir, sjúkraliði og grunnskólakennari, 2. maður á lista Lýðræðisflokksins í Norðaustur kjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI