Nausta- og Hagahverfi – frábær hverfi til að sofa í

Nausta- og Hagahverfi – frábær hverfi til að sofa í

Darri Rafn Hólmarsson skrifar

Ég rakst á félaga minn nýlega og ég minntist á það við hann að þessa dagana værum við fjölskyldan að skoða íbúðir í nýjasta hverfi bæjarins, Hagahverfi. Honum leist að sjálfsögðu vel á það en sagði reyndar strax það sem ég hef oft hugsað: „Já, Hagahverfi er flott – það er reyndar bara EKKI NEITT þarna.“ 

Í kjölfar þessara samræðna þá varð ég hugsi. Þetta er náttúrulega rétt hjá honum, sunnan við Miðhúsabraut þá er nánast hvert og eitt einasta rými fyrir íbúðir. Þetta samræmist kannski ekki alveg þeim hugsjónum sem voru uppi þegar fyrsta skóflustungan var tekin í Naustahverfi árið 2003. Þá var ritað á vef Akureyrarbæjar að:

Lífæð hverfisins, Kjarnagata, muni liggja í gegnum hverfið með íbúðum ásamt þjónustu, verslunum og stofnunum og skilyrði verða sköpuð fyrir fjölskrúðugt mannlíf og öfluga hverfistengda þjónustu. (1)

Þrátt fyrir að Nausta- og Hagahverfi séu nú orðin bæði þétt og fjölmenn hverfi þá get ég ekki talið betur en að þar séu samtals í raun aðeins þrjár byggingar sem eru ekki íbúðir: Bónus í útjaðri Naustahverfis, Naustatjörn og Naustaskóli. Hina öflugu þjónustu sækja íbúarnir út fyrir hverfin, að sjálfsögðu á einkabílnum og helst á tveimur stykkjum. Við Akureyringar erum nefnilega frægir fyrir þá tölfræði: við erum með 700 bíla á hverja 1000 íbúa – sem er mögulega heimsmet. (2)

Mynd: Kristófer Knutsen / www.akureyri.is

Dæmisaga úr suðurbænum

Hvað á ég við með þessu meinta þjónustuleysi? Tökum lítið dæmi. Það er þriðjudagskvöld hjá henni Helgu í Hagahverfi. Klukkan var að smella í 19:07. Barnið grætur, það vantar bleyjur, mjólk og ég veit ekki hvað og hvað. Hún Helga er að reyna að minnka notkun einkabílsins og því skulum við segja að hún ætli að ganga í næstu opnu verslun á þessum tímapunkti. Þá er nefnilega svolítið ferðalag framundan:
Því sá sem gengur í næstu opnu verslun, eftir kvöldmat, úr miðju Hagahverfi er aðeins nokkrum mínútum sneggri en sá sem keyrir frá Dalvík! (3)

Þessar aðstæður eru heilt yfir fjarri því sem tíðkast í öðrum hverfum bæjarins. Hér kemur smá samanburður á milli hverfa fyrir álíka ferð í opna verslun eftir kvöldmat. Ferðin frá hverju hverfi miðast við aðra leið frá miðpunkti hverfisins: (4)

Ef þú ert aftur á móti íbúi í Nausta/Hagahverfi þá lítur tölfræðin svona út (og munið: krakkinn grenjandi, bleyjurnar búnar og allt það):  

Ekki misskilja mig, ég er aldeilis ekki mótfallinn góðri heilsubótargöngu. En þegar það að ganga fram og til baka úr miðju Hagahverfi eftir helstu nauðsynjavörum eftir kvöldmat tekur um klukkustund þá er ást okkar á einkabílnum orðin enn skiljanlegri.

Nú gæti einhver bent á að viðkomandi gæti nú tekið gjaldfrjálsan strætó í þessu tilfelli. Höfum þá í huga að á þessum tímapunkti er tíðni strætisvagna aðeins ein leið sem gengur á klukkutíma fresti. Viðkomandi gæti þá fyrir það fyrsta þurft að bíða í allt að klukkustund eftir vagni, eftir leið sem tekst einhvernveginn að fara frá Naustahverfi niður í miðbæ án þess að vera nálægt opinni verslun fyrr en rúmum hálftíma síðar, hjá Hagkaup við Hjalteyrargötu. Ef viðkomandi kaupir sínar nauðsynjavörur þar þá er hann í fyrsta lagi í hinum enda bæjarins, í öðru lagi þyrfti hann að bíða í tæpa klukkustund eftir strætisvagni heim og í þriðja lagi tæki sú ferð til baka tæpan hálftíma. Það eru auðvitað ýmsar breytur sem spila hér inn í en það er engu að síður nokkurnveginn sama hvernig þú setur dæmið upp: að taka strætó frá þessu svæði, í þessum erindagjörðum, á þessum tíma er stórkostlega tímafrekt og óhentugt.

Hvernig er planið í Hagahverfi?

Ég minntist á það hér ofar að við síðustu aldamót hafi verið uppi prýðilegar hugmyndir um verslanir, stofnanir og þjónustu í Naustahverfi. Hvernig hafa þá hugmyndir um slíkt verið settar fram hvað varðar Hagahverfi? Þær einkennast einkum af því að rými í húsum við Kjarnagötu séu skilgreind þannig að þau gætu mögulega innihaldið verslun eða þjónustu á jarðhæð:

Þetta er ágætis hugmynd en er að mínu mati illa afgreidd þar sem þessi hús eru flestöll risin og hvergi sjást nein ummerki um verslun eða þjónustu. Hér er þá hugmyndin að kannski, mögulega, einhverntímann opni snyrtistofa þar sem Sigþrúður frænka bjó í íbúð 103? Ég tel að líkurnar séu afar litlar á því að rými sem er nú þegar orðið að íbúð verði breytt í atvinnustarfsemi bara vegna þessarar skilgreiningar og/eða aukinnar lofthæðar.

Auk þess má þó finna í deiliskipulagi Hagahverfis áætlanir um verslun/þjónustu á reit 19 og leikskóla á reit 20. Til að átta okkur betur á því hvað það þýðir þá skulum við sjá mynd: (5)

Deiliskipulag Hagahverfis er semsagt frá árinu 2014. En frá þeim tíma eru nú liðin átta ár og á þessu tímabili hef ég satt best að segja ekki heyrt hósta né stunu um þær áætlanir sem hér birtast um verslun/þjónustu og leikskóla. Á þessu svæði er enn í dag mjög tómlegt um að lítast og greinilegt að það eru mörg ár í að einhverju nytsamlegu verði komið á fót þar. Það er að mínu mati synd og skömm ef þjónusta og leikskóli eiga að vera allra síðustu smiðshöggin í hverfinu, þar sem þörfin fyrir hvoru tveggja er án efa til staðar nú þegar.

Tækifæri í milliveginum

Nú hef ég tönnlast á því að tala um Nausta- og Hagahverfi, en ég tel einmitt að mikil tækifæri leynist á svæðinu á milli þessara hverfa. Fyrir það fyrsta þá verðum við að vona að einn góðan veðurdag muni í raun leikskóli rísa á reit 20 og verslun/þjónusta á reit 19.

En ég vil hugsa stærra. Skoðum aðeins myndina hér fyrir ofan og beinum sjónum okkar að reitum 21, 24 og 22. Í dag standa þar hálfgerðir bóndabæir, þar sem hestar eru á beit á sumrin í miðju íbúðahverfi. Með fullri virðingu fyrir íbúum þar og hestunum að sjálfsögðu líka, þá hlýtur þetta svæði að vera orðið eftirsótt byggingarland þar sem nú hefur þétt byggð risið umhverfis það. Ég átta mig mjög vel á íbúðarskorti hér í bæ, en á nákvæmlega þessu svæði er að mínu mati tilvalið tækifæri til að byggja upp þjónustu sem myndi gera hverfin tvö enn lífvænlegri.

Draumur um lifandi hverfi

Og hvernig gerum við það? Líklega er ég draumóramaður, en hér er samt engin ástæða til að hugsa smátt. Hvað með að hreinlega byggja þetta svæði upp líkt og Grósku í Vatnsmýri? Skrifstofuhúsnæði fyrir framsækin fyrirtæki, líkamsræktarstöð, kaffihús, mathöll. Hverskonar áhrif myndi það t.d. bara hafa á umferðina í bænum ef hinir fjölmörgu íbúar Nausta- og Hagahverfis geta sótt þessa þjónustu í sínu hverfi?

Í lifandi hverfi þá geturðu gengið stuttan spöl til þess að komast í klippingu, í bakarí og sumir í vinnuna. Það eru mikil lífsgæði og margir íbúar bæjarins geta gert það nú þegar. Við Hrísalund kemstu einmitt í klippingu, bakarí, verslun sem er opin fram yfir kvöldmat og jafnvel í húðhreinsun í leiðinni. Kaupangur er svo dæmi um hverfiskjarna sem inniheldur ýmsa vinnustaði og allskyns þjónustu. Íbúar Síðuhverfis geta t.d. gengið í nokkrar mínútur til vinnu í þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem liggja við Frostagötu. Ýmsir íbúar Glerárhverfis geta gengið til vinnu í Sunnuhlíð og íbúar á Eyrinni þurfa jafnan að ganga stuttan spöl til vinnu við t.d. Glerárgötu, Tryggvabraut, Furuvelli eða Glerártorg. En sunnan við Miðhúsabraut? Þar er ekkert slíkt að finna, hvorki almenn fyrirtæki né hverfiskjarna.

Ég fann fyrir þörfinni til að skrifa þennan pistil eftir að hafa hitt manneskju á förnum vegi sem ákvað einmitt að flytja úr Hagahverfi vegna þess hve langt er í allar tegundir af þjónustu. En þarf þetta nokkuð að vera svona í splunkunýjum hverfum? Eins og Helgi Gunnarsson forstjóri fasteignafélagsins Regins sagði nýlega í viðtali: „Fólk vill minni einingar, fólk vill raunverulega geta sótt verslun og þjónustu stutt, geta hjólað, gengið. Þetta er trend sem er alls staðar í kring um okkur.“ Ég er nokkuð viss um að hann viti sínu viti. (6)

Niðurlag

Mögulega er hægt að afskrifa þennan pistil sem eitthvað tuð frá frekum forréttindapésa. En ég vil einfaldlega koma því á framfæri að ég er handviss um að í Nausta- og Hagahverfi sé hægt að gera betur. Það er ekki einhverskonar lögmál að þessi hverfi séu bara til þess að sofa í og að öll þjónusta sé sótt með einkabílnum á aðra staði. Í þessum hverfum er mikið af ungu fólki sem við erum í raun og veru að venja á að fara allar sínar ferðir á bíl. Við höfum kjörið tækifæri til að bæta hverfin okkar þegar þau eru enn í vinnslu. Ég trúi því að öflugri hverfi geti bæði gert okkur hamingjusamari og minnkað þessa akureyrsku þörf okkar fyrir tvo bíla á hvert heimili.

Höfundur er ekki í framboði en skorar á framboð til sveitarstjórnarkosninga að hafa þessi mál í huga.

Heimildir:

(1) – https://www.akureyri.is/is/frettir/fyrsta-skoflustungan-tekin-i-naustahverfi?fbclid=IwAR2_dYR6vuADbFJDXfkat0yXw9NONyFpmsKjRzXvnkjXeHJGHyC78VP0SnE

(2) – https://www.ruv.is/frett/sterk-bilamenning-thratt-fyrir-gjaldfrjalsa-straetisvagna  

(3) – Hér miða ég við ferð frá Dalvík -> Strax Borgarbraut = 33 mín akstur miðað við Já.is. Frá miðju Hagahverfi -> Krambúð Byggðavegi = 29-30 mín ganga miðað við Já.is.

(4) – Vega-og tímalengdir miðast við Já.is.

(5) –  https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Lodir/skilmhagahv.pdf

(6) – https://n4.is/frett/minni-verslunarmid

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó