NTC

Nauðlending á öræfum

Nauðlending á öræfum

„Sunnudaginn 18. nóvember árið 1951 lagði lítil flugvél upp frá Melgerðismelaflugvelli, og var ákvörðunarstaður hennar Reykjavík. Vélin, sem bar einkennisstafina TF—KAM, var tveggja sæta eins hreyfils tvíþekja. Í vélinni voru eigendur hennar, þeir Viktor Aðalsteinsson, nú flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands, og Stefán E. Sigurðsson, sá er þessar línur ritar.“

Þannig hefst reynslusaga sem birtist í dagblaðinu Íslendingi í desember árið 1961 undir heitinu Nauðlending á öræfum fyrir 10 árum síðan. Í sögunni deilir Stefán upplifun sinni af örlagaríkri flugferð með lesendum 10 árum eftir að hún endaði með nauðlendingu á öræfunum upp af Eyjafjarðarbotni. Hér að neðan er frásögn Stefáns skráð eftir upprunalegu heimildinni og henni miðlað til lesenda Sagnalistar. Gefum Stefáni E. Sigurðssyni orðið.

„Ferð þessi var farin til þess að láta athuga og yfirfara suma af mælum vélarinnar, og rétta af áttavita hennar, en þessi verk voru ekki framkvæmanleg annars staðar en í Reykjavík.

Ferðin suður gekk í alla staði vel, og vorum við lentir á Reykjavíkurflugvelli eftir tæpa tvo klukkutíma.

Á mánudaginn hófst viðgerð mælanna, en var ekki lokið um kvöldið. Snemma á þriðjudaginn vorum við tilbúnir til heimferðar, en smávegis tafir orsökuðu, að ekki var lagt af stað fyrr en um hádegi. Ákveðið var að fara beina stefnu norðan jökla og koma niður í Villingadal, en á þeim árum var það algengasta flugleiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur. Flugumferðarstjórnin gaf flugheimildina fyrir þessari leið, og skýrði okkur frá veðrinu á leiðinni, léttskýjað, norðan hægviðri og bjart, en allmikið frost.

Lagt af stað norður

Kl. 12.39 hófst flugið frá Reykjavík, og var flugtíminn áætlaður rúml. tvær klst., en eldsneyti höfðum við til 3½ – 4 stunda flugs. Kl. 13.00 erum við staddir yfir Esjunni í 5500 feta hæð og höfum stefnu á Eiríksjökul. Snjór er yfir öllu, veður stillt, en frost 10 gr., en það sakar okkur ekki, því vélin er upphituð, og auk þess erum við klæddir þykkum skinnfötum.

Útsýni er gott, og hrikalegur Eiríksjökull, með sínar svörtu hamrahlíðar og snæviþakta koll, gnæfir yfir félaga sína og nágranna, Ok og Strút, jafnvel sjálfur Langjökull verður að viðurkenna hæð hans og tign.

Okkur miðar vel, og brátt er þessi tignarlegi jöklakonungur að baki. Flughæðin er 6000 fet og hraðinn um 85—90 mílur á klukkustund. Kl. 14.20 erum við komnir langleiðina að Blönduvaði, og þar mætum við Loftleiðaflugvélinni Vestfirðing. Flaug hann nokkru norðar en við og í um 1000 feta minni hæð. Við vonuðum, að þeir á Vestfirðing tækju eftir okkur, svo þeir gætu látið vita um staðarákvörðun okkar með talstöðinni, en við höfðum ekki senditæki í okkar vél. Til þess að vekja athygli þeirra, veltum við vélinni á báðar hliðar, en þeir virtust ekki sjá okkur, a. m. k. sýndu þeir það ekki á nokkurn hátt. Vestfirðingur var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur. Vestfirðingur hverfur til suðurs, og aftur erum við einir á ferð. Framundan er hálendið milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, og bráðum verðum við í Eyjafirðinum. Framundan birtast Urðarvötn. Þau eru ísi lögð, og á ísnum er snjór.

Versti óvinurinn nálgast

Veðrið er enn bjart og gott, og við lækkum flugið í áttina að Hafrárdal, sem er þverdalur vestsuðvestur úr Eyjafirði. — Þá skeði það. Hreyfillinn hægir allt í einu á sér. Viktor eykur við hann eldsneytisgjöfina, en það kemur fyrir ekki. Snúningshraðinn minnkar jafnt og þétt. Og við vitum hvað er að. Versti óvinur flugmanna, næst þokunni, ísingin. Ísing hefur setzt í blöndunginn, og hreyfillinn fær ekki nægilegt súrefni. Framundan er fjallgarður með dökku og óárennilegu klettabelti. Okkur er þegar ljóst, að ofan í Eyjafjörð komumst við ekki. Nauðlending er eina leiðin. Vélin lækkar ört, og nú er hæðin aðeins 3500 fet. En hvar á að lenda? Fyrir neðan okkur eru aðeins klettar eða snjór, hvergi sléttur flötur, en flugvél þarf sléttu til að lenda á. Snúningshraði hreyfilsins er nú aðeins 1300 snúningar með fullri eldsneytisgjöf, en á að vera 1925 í venjulegu flugi, og eftir tvær til þrjár mínútur hljótum við að koma til jarðar, ef ekki gerist kraftaverk. Tveir menn í eins tonns málmbákni, sem nálgast jörðina ört og geta enga björg sér veitt.

Frásögn Stefáns má lesa í heild sinni á Sagnalist.is.

Sambíó

UMMÆLI