Akureyringurinn Halldór Arason segir breytingu þarfa í upplýsingamálum Akureyrarbæjar ekki seinna en strax.
„Ég vil fá breytingu. Ég vil að gögn og skjöl sem Akureyrarbær á séu aðgengileg öllum á góðu formi, ekki bara öllu dömpað í einhverja kistu og svo er viðmótið bara: farið og leitið. Það er mjög auðvelt að fela eitthvað með þessum hætti.“
Halldór, stjórnarmaður Pírata á Norðausturlandi segir frá því að hann hafi sent fyrirspurn til Akureyrarbæjar í lok febrúar þar sem hann óskaði eftir yfirliti um samninga sem Akureyrarbær hefur gert við ríkið. Þetta gerði Halldór í krafti upplýsingalaga, en hann óskaði eftir þessu yfirliti fyrir tímabilið 2006-2017.
Um var að ræða tölvupóst sem hann sendi til bæjarins en síðar fékk hann sent form frá þeim til baka sem hann síðan fyllti út og sendi aftur.
Halldór fékk synjun á þeim forsendum að Akureyrarbæ væri ekki skylt að útbúa ný gögn og að fyrirspurnin hafi ekki verið nægilega skýr. Þetta þótti Halldóri sérstakt þar sem að gögnin eiga að sjálfsögðu að vera til staðar nú þegar og skv. upplýsingalögum ber bænum skylda að veita þessar upplýsingar ef óskað er eftir þeim. Sér í lagi vegna þess að óskað var eingöngu eftir yfirliti um samninga, en ekki eftir samningunum sjálfum. Auk þess segir í 15.grein upplýsingalaga að þeim beri leiðbeiningarskylda að hjálpa einstaklingum að afmarka spurningu til að veita yfirlit. Þó segir í póstinum frá bænum að svar þeirra hafi tekið svona langan tíma vegna þess að lögfræðingur þurfti að fara yfir málið.
„Þetta er bara computer says no. Þetta kerfi er bara alveg lokað. Ég sendi þeim aftur formlega beiðni um að þetta yrði endurskoðað og skilst að þetta sé í einhverju ferli. Ég hef samt ekkert heyrt ennþá.“
Halldór segist hafa í bræði sinni tjáð sig um málið á facebook-síðu sinni og stuttu eftir hafi Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðaustur kjördæmi, veitt færslunni athygli og boðist til að bera málið upp á Alþingi.
„Það er í raun auðveldara fyrir mig að fá upplýsingar um Akureyrarbæ í gegnum þingmann í Reykjavík fremur en hjá Akureyrarbæ sjálfum.“
En af hverju ætli það skipti svona miklu máli að fá þessar upplýsingar hjá bænum? Halldór segir mikilvægi þess að upplýsingar séu aðgengilegar hafa sýnt sig vel síðari hluta seinasta árs þegar sala á hlut Akureyrarbæjar í fjárfestingarfélaginu Tækifæri rataði í fjölmiðla. Þá var það fyrrum bæjarfulltrúi sem sakaði Akureyrarbæ um spillingu vegna málsins, en hægt er að lesa umfjöllun Kaffisins hér.
„Ég vil bara fá að sjá hvaða samninga Akureyrarbær er búinn að gera síðustu ár við ríkið, sérstaklega. Það eina sem við fáum eru grunnar fréttir af bænum. Hefur Akureyrarbær gert samninga við ríkið um félagsþjónustu t.d.? Aukasamninga varðandi skólakerfið? Hvað með samningana útaf heilsugæslunni eða öldrunarheimilunum?
Fyrir nokkrum árum var Logi Einarsson að tala um að ríkið skuldaði Akureyrarbæ peninga, hvernig getum við nálgast þær upplýsingar? Ríkisbatteríið segir nei, það eru bara ákveðnar krónur til. Af hverju höfum við ekki aðgang að þessu?
Þetta eru opinberar stofnanir. Þetta er bull. Þetta á að vera aðgengilegt,“ segir Halldór.
Halldór segir mjög fáa samninga vera inn á heimasíðu Akureyrarbæjar, hægt sé að finna samninga við einhver íþróttafélög í bænum en það sé eiginlega það eina. Hann tekur þó fram að tillögur að breytingu varðandi opnari stjórnsýslu hafi verið gerð síðastliðið haust, þ.e. keyptur einhver hugbúnaður til að opna hlutina meira, en framför í þeim málum hefur ekki ennþá sést. Fólk gengur að lokuðum dyrum þar sem engar upplýsingar er að fá nema gengið sé hart á eftir hlutunum.
Halldór segist horfa mikið til Reykjavíkurborgar í þessum málum. Þá horfir hann helst til hins opna bókhalds sem Reykjavík opnaði fyrir ekki svo löngu síðan. Þar er mjög aðgengilegt og auðvelt að sjá hverjir eru að fá pening og hversu mikinn.
„Það segir sig svolítið sjálft að það verður eflaust meiri sparnaður ef þetta er opið. Það veitir ákveðið aðhald. Þeir sem halda utan um peningana hljóta að hugsa sig tvisvar um þegar þeir eiga hættu á því að fá gommuna yfir sig ef þeir eru að eyða í einhverja vitleysu?“
UMMÆLI