Tónleikastaðnum Græna hattinum á Akureyri hefur verið lokað vegna samkomubanns, rétt eins og öðrum tónleikastöðum landsins.
Sjónvarpsstöðin N4 og Græni hatturinn brugðu strax til þess ráðs að leita til tónlistarfólks með það fyrir augum að taka upp tónleika án áhorfenda og sjónvarpa þeim til landsmanna. Síðasta föstudagskvöld voru Stebbi Jak og Andri Ívars með slíka tónleika.
Næsta föstudagskvöld er röðin komin að söngkonunni Andreu Gylfadóttur og pianóleikaranum Risto Laur.
Græni stækkar í samkomubanninu
„Viðtökur almennings voru magnaðar eftir fyrstu tónleikana, þannig að við höldum ótrauð áfram. Svona tónleikar kalla á samstöðu allra og ég er ákaflega þakklát öllum þeim er hafa komið að þessu skemmtilega og þakkláta verkefni. Við á N4 erum stolt af því að stækka Græna hattinn, opna þennan frábæra tónleikastað fyrir landsmönnum,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4.
Andrea er drottningin
„Já, hiklaust, Andrea er fremsta blússöngkona okkar Íslendinga.Hún er hiklaust drottningin og þessir tónleikar sýna það og sanna,“ segir Haukur Tryggvason tónleikahaldari á Græna hattinum. Risto Laur er magnaður pianisti og saman eru þau bara snilldin ein.“
UMMÆLI