N4 gefur út nýtt blað á landsbyggðinni

Mynd frá vinnu við blaðið N4 Landsbyggðir. Mynd: N4.

Fjölmiðillinn N4 gefur út nýtt blað á þriðjudaginn í næstu viku, sem kemur til með að heita N4 Landsbyggðir.

„Ritstjórnarstefna blaðsins er í grunninn sú sama og dagskrárstefna N4 Sjónvarps og byggð á þeirri hugmyndafræði  sem starfsemi N4 hvílir á. Landsbyggðunum verður gert hátt undir höfði og fjallað bæði um atvinnu- og mannlíf með uppbyggilegum hætti og bjartsýnina að leiðarljósi. Blaðið og sjónvarpið tengjast á þann hátt að hægt er að horfa á viðtöl úr blaðinu á heimasíðu N4 með því að nota QR-kóða sem finna má við þau viðtöl sem það á við um.

Fyrstu fjögur blöðin verða gefin út aðra hvora viku og móttökur lesenda og auglýsenda ráða miklu um framhaldið. Blaðið skipar sér strax í hóp víðlesnustu blaða landsins því upplagið er það stórt. Við teljum hiklaust að stórt blað sem leggur áherslu á að raddir landsbyggðanna heyrist eigi fullt erindi á markaðinn,“  segja Hilda Jana Gísladóttir og María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjórar N4.

Blaðið verður prentað í 54.500 eintökum á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír hjá Ísafoldarprentsmiðju. Blaðið er eina fríblað landsins sem dreift er á öll heimili á landsbyggðunum sem ekki afþakka fjölpóst. Þá verður blaðinu einnig dreift til allra fyrirtækja landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá N4.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó