NTC

Myndskreytti Drenginn með ljáinn

Myndskreytti Drenginn með ljáinn

Sigurjón Líndal Benediktsson, átján ára nemandi á þriðja ári á listnáms- og hönnunarbraut VMA, myndskreytti vinsæla unglingabók í jólabókaflóðinu, Drengurinn með ljáinn, sem metsöluhöfundurinn Ævar Þór Benediktsson skrifaði. Ævar Þór leitaði ekki langt yfir skammt þegar hann fékk Sigurjón til þess að myndskreyta nýju bókina sína því þeir eru bræður. Þetta kemur fram í grein á vef VMA.

„Þannig var að ég gaf Ævari kolamynd sem ég gerði hér í skólanum í hittiðfyrra. Hann hafði síðan samband við mig sl. vor og spurði hvort ég væri til í að myndskreyta nýju bókina hans með sömu áferð. Mér fannst það strax áhugavert og sló til,“ segir Sigurjón á vef VMA.

Það kom einhvern veginn ekkert annað til greina hjá Sigurjóni en að fara í listnám að loknum grunnskóla á Varmalandi í Borgarfirði. Í listsköpun lá áhugi hans. Ekki sakaði að þrjú eldri systkini hans höfðu öll verið í MA og þekktu því vel til Akureyrar. Nám í VMA hóf hann haustið 2020 og er því nú á þriðja ári í skólanum – og hefur búið á Heimavist MA og VMA þennan tíma.

„Mér hefur líkað mjög vel hér í VMA og ég er feginn að hafa ákveðið að koma hingað. Ég er á myndlistarsviði og lýk þeim hluta í vor en velti fyrir mér að bæta við mig einu ári á textílsviðinu og ljúka þá stúdentsprófinu vorið 2024. Eftir það verður tíminn að leiða í ljós hvert leiðin liggur en það gæti alveg komið til greina að fara til útlanda og læra eitthvað í listsköpun,“ segir Sigurjón.

Nánar er rætt við Sigurjón á VMA þar sem má finna ítarlegri umfjöllun um hann, fjölskyldu hans og bókina Drengurinn með ljáinn. Smelltu hér til að lesa.

Sambíó

UMMÆLI