Ósk Sigurðardóttir verður með sína fyrstu myndlistarsýningu „Hvað dreymir þig um?“ í Mjólkurbúðinni í Gilinu á sumardaginn fyrsta.
Sýningin opnar á sumardaginn fyrsta kl.14 og tónlistarmaðurinn Stefán Elí, sonur hennar, mun spila nokkur lög við opnunina. Sýningin verður svo opin helgina 27.-28. apríl og helgina 4.-5. maí.
Ósk Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri og útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2012. Ósk starfar sem leikskólakennari, markþjálfi og listakona. Hún hefur brennandi áhuga á heilsu, jafnt andlegri sem líkamlegri og vill aðstoða fólk við að ná jafnvægi í eigin lífi og að láta drauma sína rætast.
Uppspretta málverkanna á sýningunni er hugsanir og vangaveltur um drauma og þrár, hvernig hugsanir okkar stjórna athöfnum okkar og hvað framtíðin ber í skauti sér. Myndirnar lýsa tilfinningum sem hver og einn getur upplifað og tengt við á eigin máta. Verkin á þessari sýningu eru gerð á síðustu 12 mánuðum. Þau eru unnin með blandaðri tækni; akrílmálningu, bleki, blýanti, penna o.fl.
Hér er hlekkur á viðburðinn á facebook: https://www.facebook.com/events/1000337750165724/