NTC

Myndband: Gringlombian gefur út lagið Paper Bags

Tónlistarmaðurinn Ivan Mendez sem gengur undir listamannanafninu Gringlombian gaf frá sér nýtt lag og myndband í dag. Lagið heitir Paper Bags og má heyra í spilaranum hér að neðan.

Ivan fór af stað með Gringlombian sem einstaklingsverkefni snemma árið 2015 þegar hann skráði sig í Músíktilraunir. Núna hefur hann fengið fleiri til liðs við hljómsveitina. Guðbjörn Hólm spilar á bassa, Guðjón Jónsson á hljómborð ásamt því að Logi Helgason spilar á cajone trommukassa.

Ivan segir að lagið Paper Bags hafi orðið til mjög hratt, nánast í einni setu. „Á þeim tíma sem þetta lag og texti urðu til hafði ég velt mikið fyrir mér hugtakinu „tíðarandi“.  Hver er okkar tíðarandi? Hverjir eru þeir straumar sem við fylgjum nánast blind? Hvað telur fólk okkar tíma að muni veita sér lífsfyllingu? Öll þessi hugmyndafræðikerfi sem við lifum eftir eins og söguþræði en gerum okkur varla grein fyrir, því þau er svo samtvinnuð allri okkar vitund.“

Hann segir að dýrir plasthlutir í fínum pappírspokum geti aldrei fært varanlega hamingju en að hún komi að innan. „Við leitumst öll eftir einhverskonar lífsfyllingu og hugarró. Sumir sækjast í lífsnautnir, aðrir leitast eftir frama og enn aðrir leita til trúarbragða. Að mínu mati er neysluhyggjan stærsta trúarbragð okkar tíma.“

Myndbandið við lagið má sjá hér að neðan en  Bjarki Freyr Brynjólfsson sá um myndatöku og klippingu þess. Guðjón Jónsson og Sigfús Jónsson sáu um hljóðupptökur og hljóðblöndun.

 

Sjá einnig: Aldrei meira lifandi en á sviðinu með gítarinn framan á sér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó