Munar Akureyringa um rúmlega 10 milljarða eingreiðslu og síðan 3 milljarða á ári?Ólafur Kjartansson skrifar:

Munar Akureyringa um rúmlega 10 milljarða eingreiðslu og síðan 3 milljarða á ári?

Það er möguleiki á því að Akureyringar geti sparað sér umtalsverða fjárhæð. Hve há hún er veit ég ekki nákvæmlega og því miður er líka misjafnt í hvaða aðstöðu fólk er til að gera þetta en það er býsna stór hópur sem á möguleika á þessum valkosti. Þetta val snýst um að nota fleiri aðferðir en einkabílaakstur til að fara á milli staða. Strætó, hjóla, ganga og svo er möguleiki að nýta leigubíl í einhverjum tilfellum. Þetta kostar öðruvísi fyrirhöfn en að vera með einkabíl í rekstri og margir myndu þurfa að hugsa dagskrána upp á nýtt en fyrir þá sem geta er sparnaðurinn umtalsverður.  Samkvæmt frétt sem ég heyrði fyrir skömmu eru skráðir fólksbílar orðnir jafn margir og íbúar Akureyrar. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að bílaleiguflotinn sé í þessari tölu en samt má ætla að einkabílarnir séu nálægt 15 þúsund. Ef við myndum láta okkur nægja að vera með einn bíl á heimili giska ég á að 10 þúsund bílar yrðu eftir.

En hve mikill yrði þessi sparnaður? Ég veit ekki nákvæmu töluna eins og ég sagði en leyfi mér að giska. Nýr bíll kostar 3-5 milljónir, notaður minna, ætli meðaltalið sé nálægt 2 milljónum? Síðan þarf að borga rekstur og allt sem fylgir notkuninni. Mitt ófullkomna heimilisbókhald segir mér að reksturinn á gömlu dósinni okkar kosti okkur c.a. 550-600 þús á ári. Ég er meira en einn og hálfan mánuð að vinna fyrir þessari upphæð eftir skatta.

Sem sagt ef þessar tölur eru réttar þá:  Startkostnaður 5000 einkabíla ca.10 þúsund milljónir og reksturinn á ári tæpar 3 þúsund milljónir. Þá er eftir að skoða kostnað bæjarsjóðs og fyrirtækja. Hver einasti bíll í rekstri kostar götu- og bílastæðapláss.  Skoðum bara bílastæðin. Við vinnustaðinn, búðina, ræktina, bíóið og svo framvegis. Er ósanngjarnt að gera ráð fyrir 2-3 bílastæðum fyrir hvern bíl sem er í daglegri notkun? Hvað kostar það? Ég hef séð mikinn kostnaðarmun á mismunandi útfærslum. Allt frá einföldum hellustæðum á 300 þús yfir í bílastæðahús sem kosta yfir 2,5 milljónir á stæði. Ódýrasti kosturinn við að útbúa bílastæðin sem þessir 5000 bílar myndu þurfa væri þá meir en 1,5 milljarður. (Tvisvar sinnum endurbyggingin á húsum listasafnsins)

Niðurstaðan mín var einfaldlega sú að í staðinn fyrir að við gömlu hjónin værum með sitthvorn bílinn til að fara okkar daglegu ferða fékk ég mér reiðhjól fyrir 200 þúsund og fór að berjast af alvöru fyrir bættri aðstöðu strætó, gangandi fólks og þeirra sem vilja nota reiðhjól sem SAMGÖNGUTÆKI á Akureyri. (Ekki bara sem leikföng á góðviðrisdögum.) 

Höfundur er varafulltrúi VG í skipulagsráði Akureyrar. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó