Morgunógleði!

Sigurður Guðmundsson skrifar

Ég er ánægður fyrir hönd snillingana sem keyptu hlut Landsbankans í Borgun. Allir eru öskureiðir út í bankann fyrir viðskiptin. Þarna voru á ferð harðir karlar í viðskiptum sem höfðu aðgang að innherjaupplýsingum sem þeir nýttu sér. Við hin erum bara svona heimsk. Í venjulegum löndum fara menn í fangelsi fyrir svona lagað en ekki hér. Ábyrgð er eitthvert orðskrípi sem á að fella úr íslenskri tungu. Svona einsog Zetan á sínum tíma. Fólk gleymir reyndar afar fljótt og vill ekki trúa hver er í rauninni ábyrgur fyrir sölunni. Það er fv. fjármálaráðherra og óskabarn þjóðarinnar Bjarni Benediktsson. Hann á það til að vera gleyminn einsog við t.d. þegar einhverjar skýrslur detta milli þilja og finnast við tiltekt kringum jólin. Hann man ekki neitt nema það sem hann vill muna, biðst svo afsökunar enda var hann að skreyta kökur á þessum tíma. Þessu er troðið ofan í kokið á okkur og við þiggjum það með þökkum. Við verðum pínu sár í hálsinum en það hlýtur að lagast einsog alltaf. Þetta getur gerst á bestu bæjum. Ég fann til dæmis fyrir algjöra slembilukku fjarstýringuna fyrir sjónvarpsboxið undir kommóðunni uppi í stofu um daginn. Var búinn að leita að henni dögum saman og hún er miklu minni heldur en þessar skýrslur sem týndust. Þar var ég svo sannarlega heppinn. Kom svo reyndar í ljós að gestkomandi barn hafði falið hana. Það er annað mál. Óheppilegt er kannski rétta orðið.

Það ætti að vera skýlaus krafa okkar að sömu aðilar og keyptu Borgun fái líka að kaupa bankana. Nota sömu reikniformúlu við útreikning á söluverðinu og var gert með verðmatið á því ágæta fyriræki Borgun. Að kaupa fyrirtæki í eigu ríkisins á að vera gróðvænlegt. Einsog allir vita kann ríkið ekki að reka nokkurn skapaðan hlut. ÁTVR og Landsvirkjun á auðvitað að selja líka enda rakalaus þvættingur hvernig staðið er að málum í dag. Sömu aðilar ættu að kaupa þau fyrirtæki líka. Áfengisfrumvarpið hið þrítugasta í röðinni er auðvitað fyrsta skrefið í þessa átt. Segjum sem svo að það fari í gegn. Innan árs verður krafa verslana að ríkið hætti í samkeppni við einkaaðila á sölu áfengis. Þetta endar líklega fyrir dómi einhversstaðar. Við þekkjum ferlið. Hvernig væri að þingið myndi leita leiða til að lækka vexti í stað umræðu um brennivín í verslunum 10-11? Það skiptir meira máli en aðgengi að áfengi. Siðlaust.

Ég nenni ekki einu sinni að tala um þennan spítala eina ferðina enn. Hvað gerðist í þeim málum á síðasta kjörtímabili? Ekkert!

Það sorglegasta í þessu þjóðfélagi er að það breytist ekki neitt. Vissulega eru auknir peningar í umferð en það er heimskulega dýrt að búa hérna. Húsnæðisverð er fáránlega hátt og vaxtastigið þannig að byrðar íslenskra heimila eru ógnvænlegar. Þó að afkomendur okkar séu líklega á leið í sömu hlekki og fyrri kynslóðir er skynsamlegast að halda sig á gamla slóðanum. Á þessu græðir enginn nema eigendur fjármagns. Þar er veisla sem almenningur borgar með glöðu geði í formi vaxtaokurs og bjánalegs húsnæðisverðs. Það er ekki til siðs að kvarta og við gætum fengið á okkur stimpil sem kommúnistar eða eitthvað enn verra ef við tölum um þetta. Mér er sama.

Af hverju ættum við að breyta einhverju sem hefur gefist svo vel. Við höldum í þennan handónýta gjaldmiðil okkar og verjum hann með kjafti og klóm. Í heimsku okkar teljum við að í ljósi sögunnar sé það réttlætanlegt. Aðskilnaður frá konungsveldi Dana, þorskastríð, ríkisborgararéttur Bobby Fischers og árangur Íslenska landsliðsins í knattspyrnu segir okkur að krónan er góð fyrir okkur. Svo er Bjarni Ben. á sömu skoðun. Við höfum engin rök gegn henni. En þetta lagast allt þegar Costco og H&M opna sínar verslanir. Í alvöru? Nei, ég er að grínast.

Umræðan um skuldir ríkisins er ágæt. Best sé að ná þeim niður sem fyrst og niður fyrir ákveðið hlutfall. Aldrei er talað um íslensk heimili í þessari umræðu. Hlutfallslegar skuldir heimila hafa vissulega lækkað en einungis með tilkomu hærra húsnæðisverðs. Ég á meira í húsinu mínu núna en það er ekki vegna þess að ég hafi getað borgað lánin hraðar niður. Þetta er allt saman blekking. Spá Arion banka um hækkun húsnæðisverð um 34% á næstu árum er ekkert nema landráð. Óábyrgt og fær eigendur fjármagns til að fá kitl í lófana. Þessi heimska þjóð.

Það jákvæðasta við landið núna er veðrið.

Góðar stundir.

Greinin er aðsend – skoðanir þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI