NTC

Möguleg lausn í sjónmáli fyrir talmeinafræðinga og skjólstæðinga þeirraMynd: Háskóli Íslands/hi.is

Möguleg lausn í sjónmáli fyrir talmeinafræðinga og skjólstæðinga þeirra

Samkvæmt umfjöllun RÚV þurfa yfir 60 börn, sem fengið hafa þjónustu hjá tveimur talmeinafræðingum á Akureyri, að fara aftur á biðlista eftir að handleiðslutímabili er lokið. Þetta er sökum þess að reglur Sjúkratrygginga Íslands krefjast þess að eftir nám þurfi talmeinafræðingar að ná sér í tveggja ára starfsreynslu áður en hægt er að gera samning við þá um greiðsluþátttöku ríkisins.

Nú þegar eru langir biðlistar en sökum reglna Sjúkratrygginga sáu talmeinafræðingarnir tveir fram á atvinnuleysi eftir útskrift og óvissu um hvernig ætti að ná í starfsreynsluna. Líklega þurfi talmeinafræðingarnir að flytja eitthvert annað. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi talmeinafræðinga er svipuð staða um allt land og veldur sérstökum vandræðum á landsbyggðinni.

Nú virðist vera lausn í sjónmáli fyrir talmeinafræðingana á Akureyri en María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, vill leysa vandann með því að gera samning við stofurnar þeirra í stað einstaka talmeinafræðinga.

„Við höfum boðið stofunni á Akureyri nýjan samning þar sem yrði samið við fyrirtækið frekar heldur en einstaka veitendur þjónustunnar. Þá geta þeir sem hafa takmarkaða reynslu í raun unnið á ábyrgð fyrirtækisins. Það myndi leysa þetta vandamál að minnsta kosti að nokkru leyti“, segir María í samtali við fréttastofu RÚV, en umfjöllunina má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Víða um land eru þó enn talmeinafræðingar sem þurfa að hætta að sinna skjólstæðingum sínum eftir handleiðslutímabilið. Fjárveitingarnar sem Alþingi hefur veitt þessum málaflokki virðast vera takmarkaðar og upphæðin dugir ekki til ef allir talmeinafræðingar eiga að geta veitt niðurgreidda þjónustu strax eftir útskrift.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó