Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga. Aðallega eftir að sú ákvörðun var tekin að banna lausagöngu katta í bænum árið 2025. Bæjarstjórnin hefur einnig verið gagnrýnd opinberlega á undanförnum vikum fyrir metnaðarleysi í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og ein af fjórum bæjarfulltrúm sem var á móti banni á lausagöngu katta, hefur orðið vör við gagnrýni á störf bæjarstjórnarinnar og ákvað að taka saman lista yfir það sem núverandi bæjarstjórn hefur gert og hún telur að einhver gæti verið ánægður með.
Hilda Jana nefnir að:
• búið sé að byggja nýjan leikskóla og tekin séu inn 6 mánuðum yngri börn en áður
• frístundaávísunin hafi hækkað í 40 þúsund
• byggð hafi verið húsnæði fyrir heimilislausa
• farið hafi verið í endurbætur á Glerárskóla og Lundarskóla
• gerður hafi verið nýr göngu- og reiðstígur yfir Eyjafjarðará
• Akureyrarbær í samstarfi við ríkið hafi staðið að opnun Kvennathvarfs, Bjarmahlíð miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis og Barnahús
• búið sé að byggja aðstöðu fyrir siglingarklúbbinn Nökkva
• byggðir hafi verið þjónustukjarnar fyrir fatlað fólk
• undirbúningur sé hafinn við að bæta aðstöðuna í Skautahöllinni
• tekjumörk á afslætti fasteignaskatts til elli- og örorkulífeyris hafi hækkað
• skimað sé markvisst fyrir ofbeldi
• sett hafi verið fram aðgerðaráætlun gegn kynbundu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum
• Akureyrarbær hafi hlotið viðurkenningu jafnvægisvogarinnar
• hverfisnefndir í Grímsey og Hrísey hafi fengið sérstakt fjármagn til uppbyggingar
• verið sé að vinna að stígagerð í Glerárdal
• barnamenningarhátíð hafi verið sett á laggirnar
• nú séu veittir styrkir til ungra og efnilegra listamanna
• tekin hafi verið í gagnið ný skólphreinsistöð
• þriðji metan strætisvagninn hafi verið tekinn í notkun
• verið sé að gróðursetja plöntur í Græna trefilinn
• verið sé að vinna að rafvæðingu hafna
• verið sé að auka upplýsingagjöf til bæjarbúa
• 1000 sumarstörf hafi verið í boði hjá bænum í covid ástandinu í fyrra
•farið hafi verið í markaðsátak á innanlandsmarkaði
• vinna sé í gangi við nýtt stígaskipulag þar sem gangandi og hjólandi fá aukna hlutdeild
• margra ára barátta við ríkið sé að skila nýju flughlað og flugstöð, legudeild við sjúkrahúsið á Akureyri og tveimur heilsugæslustöðvum
• NPA samningar hafi verið innleiddir
• farið hafi verið í aðgerðir gegn svifryksmengun
• verið sé að fara í endurbætur á Torfunefsbryggjunni
• tvö ný hverfi séu í uppbyggingu
• Akureyrarbær hafi verið viðurkennt sem fyrsta barnvæna sveitarfélags landsins
• bærinn styrki kaup á nýjum snjótroðara í Kjarnaskógi
• gerðir hafi verið nýir þjónustusamningar við íþróttafélög
• hjólabraut hafi verið sett upp við Oddeyrarskóla
• leiktæki hafi verið sett við göngugötuna
• farið hafi verið í endurnýjun gervigrasa við grunnskóla
• gerð hafi verið metnaðarfull menntastefna og aðgerðaráætlun
• verið sé að ljóleiðaravæða Hrísey
• uppbygging sé að hefjast á vistvænum miðbæ
• til standi að fara í gagngerar endurbætur á Tryggvabraut
• farið hafi verið í endurnýjun umferðarljósa til að auka öryggi
• aðgengi fatlaðra í Sundlaug Akureyrar hafi verið bætt
• farið hafi verið í endurbætur á búningsklefum í Sundlaug Akureyrar
• endurnýjaðir hafi verið samstarfssamningar við Aflið
• aukinn hafi verið stuðningur við SinfóníuNord vegna upptöku á kvikmyndatónlist
• farið hafi verið í tilrauna- og átaksverkefni um aukna nýtingu á Moltu
• Akureyrarbær hafi farið í samstarf við Súlur vertical
• barist sé gegn óæskilegum gróðri
• áhersla hafi verið lögð á stafrænar lausnir
• götur í Hrísey hafi verið malbikaðar
• uppbygging sé hafin við Austurbrú
• Akureyrarbær taki þátt í samræmdri þjónusta við móttöku flóttafólks