Gæludýr.is

Mínir feitu fingur

Sr. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

Það getur verið afar áhættusamt að hleypa mínum feitu fingrum inn á lyklaborð gemsans og þegar tækjaklaufska mín bætist við hefur stefnt í stórslys.

Einn laugardagsmorguninn lá ég andvaka upp í rúmi með snjallsímann og brá mér á facebook. Þar tilkynnti vinkona mín andlát háaldraðs föður síns. Ég vildi votta henni samúð með því að senda henni hjarta en þá álpaðist vísifingurinn á vitlaust tákn.

Broskall hefði verið nógu slæmur en andlit svo skellihlæjandi að skein í tennurnar var auðvitað gjörsamlega óviðeigandi kveðja frá sóknarprestinum í þessum aðstæðum. 😁

Upphófst nú mikil barátta í rúminu á meðan ég reyndi að eyða tákninu. Að lokum fór ég fram úr og kveikti á borðtölvunni minni. Hún var aldrei seinni í gang en þennan morgun en sennilega hefur mér tekist að setja hjartað á sinn stað áður en vinkona mín vaknaði því enn er hún vinur minn á facebook.

Nokkru síðar var ég í síðdegiskaffi hjá mömmu þegar hún þurfti að skreppa frá til að ansa í heimilissímann. Ég notaði tækifærið og smellti mér á facebook í gemsanum. Þar auglýsti skólabróðir minn úr barnaskóla brúðkaupsafmæli þeirra hjóna. Mér fannst við hæfi að óska þeim til hamingju með myndarlegum þumli en rak óvart eigin þumal í grátkarlinn. 😭

Umrædd eiginkona hafði líka verið með mér í barnaskóla og við strákarnir langflestir bálskotnir í henni. Grátkarlinn gat því hæglega valdið þeim misskilningi að þar brytist fram áratuga uppsöfnuð öfund og innibyrgð gremja.

Byrjuðu því sömu átökin og í rúminu forðum.

Þegar mamma kom úr símanum var sonurinn farinn og á hraðri heimleið þar sem beið hans lyklaborð við hæfi feitra klaufaputta.

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur Akureyrarkirkju

Sjá einnig:

Þegar ég kom út úr skápnum

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó