NTC

Mikilvægt skref í umhverfismálum

Kristín Sigfúsdóttir skrifar:

Gott er að sjá hversu vel fólk er orðið meðvitað um skaðsemi plasts, hvort sem þar er átt við sjónræna mengun eða mengun af völdum örplastsagna. Hópar fólks keppast nú sem betur fer við að tína eða plokka rusl í nærumhverfi eða fjörum. Það er því við hæfi að huga að þvi hvernig við getum minnkað plastnotkunina. Það er skynsamlegt og eflir lýðheilsu að drekka hreint íslenskt vatn og hætta að drekka gosdrykki og bragðbætt vatn úr plastflöskum. Ef við minnkuðum notkun á drykkjum úr plastflöskum myndi létta mikið á vistspori þeirra sem mest nota þessa drykki.  Til dæmis gæti hver og einn sett  sér markmið um að draga úr neyslunni um 90% á næsta ártug.

Vinstri græn vilja einhenda sér í stór skref í umhverfismálum og skoða mögulegar leiðir til þess.  Sem betur fer eru aðrir stjórnmálaflokkar með minnkandi plastmengun á  stefnuskrá sinni. Mest hefur verið rætt um burðarpoka, umbúðir og plastnotkun í hreinsi- og snyrtivörum undanfarið.

Ef ekki reynist hægt að draga verulega úr neyslu á þessum plastflöskudrykkjum væri hægt að pakka drykkjunum í drykkjarfernur, sem  enduðu ekki sem örplastagnir við endurvinnslu.

Það skaðar umhverfið að framleiða flöskurnar og ráðlegra er að fá orku og vatn úr  öðrum fæðutegundum. Mikil orka fer í flutning á drykkjarvörunum. Það versta  fyrir umhverfið er samt að sitja uppi með mengandi örplastsagnir í endurteknum hringrásum náttúrunnar.   Eins og sýnt hefur verið fram á að gerist í hafinu.

Ef við meinum eitthvað með því sem við segjum um umhverfisvænan lífstíl ættum við að hugleiða þetta einfalda ráð að hætta að kaupa gosdrykki og vatn í plastflöskum. Í staðinn ættum við að kaupa okkur fjölnota drykjarbolla eða flösku sem við getum hengt utan á okkur eða gengið með í vasanum og drukkið vatn úr krana. Þetta er lífsstíll sem margir hafa þegar tamið sér. Með góðum vilja gætum við hætt þessari sóun sem fylgir notkun einnota plastflaska. Það er mikilvægur jákvæður þáttur í ferðaþjónustu og menningu þjóða að hægt sé að drekka vatn úr krana. Við Íslendingar getum sem betur fer notið þeirrar auðlegðar.

Kristín Sigfúsdóttir er umhverfisfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri og skipar  22. sæti á lista VG í sveitastjórnarkosningum í  vor.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó