Mikilvægi háskólamenntunar leikskólakennara

Mikilvægi háskólamenntunar leikskólakennara

Út er komið sérrit Tímarit um menntarannsóknir, tileinkað dr. Guðrúnu Öldu Harðardóttur leikskólakennara og leikskólastarfi. Þar er að finna ritrýndar og ritstýrðar greinar eftir núverandi og fyrrverandi HA-inga, þar á meðal Helenu Sjørup Eiríksdóttur, útskrifaðan leikskólakennara frá Kennaradeild HA starfandi á leikskólanum Krógabóli, og Önnu Elísu Hreiðarsdóttur, lektor við Kennaradeild. Þetta kemur fram á vef HA.

Útgáfu ritsins var fagnað 31. október síðastliðinn þar sem fjöldi fólks kom saman, greinahöfundar ritsins og starfsfólk Kennaradeildar. Dagskrá var fjölbreytt og áhugaverð með erindum til heiðurs Guðrúnar Öldu. „Það er heiður að fá að taka þátt í viðburði sem þessum þar sem Guðrún Alda hefur verið ötull talsmaður og baráttukona fyrir málefnum leikskólastigsins. Hún hefur rutt brautina fyrir mörg með kennsluháttum sínum, visku og brennandi áhuga á málefnum leikskólabarna og lýðræði þeirra,“ segir Helena.

Anna Elísa tekur í sama streng: „Áhrif Guðrúnar Öldu á nám leikskólakennara, á leikskólastarf og leikskólafræði eru umtalsverð. Þá hefur mér alltaf fundist svo verðmætar áherslur hennar á lýðræði börnum til handa og hún hefur alla tíð talað fyrir því að litið sé á börn sem máttug og mikils megnug.“

Leikskólakennaranám á háskólastigi hófst við Kennaradeild HA árið 1996 og skólinn því fyrstur til að bjóða upp á námið á háskólastigi á Íslandi með dyggri hvatningu og stuðningi frá Dr. Guðrúnu. „Það er ekki laust við að ég fyndi fyrir þakklæti yfir því að hún hafi tekið þátt í að gera leikskólakennaranámið að háskólanámi. Hún hvatti samfélagið áfram og fullvissaði fjölda fólks um getu þess til að fara í námið. Þá tók Guðrún Alda einnig þátt í því að taka upp fjarnám í námsbrautinni sem gerði fleira fólki kleift að stunda nám sem það brennur fyrir. Einnig má nefna alla þá vinnu sem hún hefur unnið í hag leikskólakennara um land allt með því að taka virkan þátt í stofnun stéttarfélags, sem er í dag Félag leikskólakennara, og með framlagi sínu til rannsókna með og fyrir leikskólastéttina.“ Segir Helena og bætir við: „Ég veit hvað kennarar í HA hafa haft djúpstæð áhrif á mig sem einstakling og þróun mína sem leikskólakennara og það var áhrifaríkt að heyra að Guðrún Alda hefur haft svipuð áhrif á einhver þeirra.“

Sérritið inniheldur greinar sem spegla vítt svið leikskólafræðanna og er það kærkomin viðbót í málefni leikskólasamfélagsins og því afar viðeigandi að tileinka leikskólafrumkvöðlinum henni dr. Guðrúnu Öldu Harðardóttur ritið. Anna Elísa Hreiðarsdóttir lektor við HA, Kristín Dýrfjörð dósent við HA og Svava Björg Mörk lektor við HA unnu undirbúningsvinnu við að safna efni í ritið og við keflinu tóku svo ritstjórar sérritsins, Sigríður Margrét Sigurðardóttir (HA) og Anna Kristín Sigurðardóttir (HÍ).

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó