Jólatónleikarnir Jólaljós og lopasokkar voru haldnir í Hofi á Akureyri síðastliðið föstudagskvöld, 2. desember. Óhætt er að segja að stemmning hafi verið mikil og góð þegar vel skipað lið listafólks frá Akureyri og nærsveitum fluttu hvert jólalagið á fætur öðrum.
Söngkonan Jónína Björt Gunnarsdóttir fór fyrir hópnum en hún er framleiðandi Rún Viðburðar. Ásamt henni voru á sviðinu gestasöngvararnir Óskar Pétursson og Ívar Helgason, sönghópurinn Rok ásamt dönsurunum Anítu Rós og Kötu Vignisdóttir, kynninum Vilhjálmi B. Bragasyni og sex manna hljómsveit. Hljómsveitina skipuðu þeir Daníel Þorsteinsson og Guðjón Jónsson á píanó, Stefán Gunnarsson á bassa, Valgarður Óli Ómarsson á trommur, Daníel Andri Eggertsson á gítar og Valmar Valjaots á fiðlu.
Það má með sanni segja að gestir í Hofi þetta kvöld hafi komist í gott jólaskap, en það var einmitt tilgangurinn með þessu öllu og enduðu tónleikarnir á standandi lófaklappi.
Jólaljós og lopasokkar verða haldnir að ári í Hofi og ljóst að hér er orðin til hefð þar sem Norðlendingar geta notið þess besta sem listafólk þeirra hefur upp á að bjóða.
UMMÆLI