Mikil aðsókn er í áheyrnarprufur Leikfélags Akureyrar fyrir söngleikinn Vorið vaknar en nú þegar hafa um 100 manns skráð sig í prufurnar.
Áheyrnarprufur fara fram í Reykjavík 18. og 19. maí og á Akureyri 20. og 22. maí. Skráningar eru enn í fullum gangi á vefsíðunni www.mak.is en nú fer hver að verða síðastur að skrá sig. Æskilegur aldur þátttakenda er 17-27 ára.
Vorið vaknar er margverðlaunaður söngleikur sem byggður er á samnefndu þýsku leikriti frá 1891 eftir Frank Wedekind og fjallar um tilfinningarót, sjálfsuppgötvun og fyrstu kynlífsreynslu unglinga í afturhaldssömu og þröngsýnu samfélagi 19. aldarinnar.
Uppfærsla söngleiksins á Broadway árið 2006, með leikkonuna Leia Michele innanborðs, hlaut átta Tony Awards og þar á meðal sem besti nýi söngleikurinn. Uppsetningin vann þar að auki fjölda annarra verðlauna og tilnefninga.
Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, mun leikstýra verkinu en listrænir stjórnendur eru þeir sömu og í söngleiknum Kabarett sem Leikfélag Akureyrar setti upp í byrjun þessa leikárs. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson verður tónlistarstjóri, Auður Ösp Guðmundsdóttir sér um leikmynd og búninga, Gunnar Sigurbjörnsson um hljóðið, Ólafur Ágúst Stefánsson lýsinguna og danshöfundur verður Lee Proud.
Vorið vaknar verður frumsýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri í janúar 2020.
UMMÆLI