Samkvæmt þjónustukönnun Gallup sem gerð var í nóvember 2017 til janúar 2018 bera íbúar á norðurlandi eystra mikið traust í garð Sjúkrahússins á Akureyri. Markmið könnunarinnar var að mæla traust almennings til sjúkrahússins á starfssvæði þess ásamt því að mæla afstöðu þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu sjúkrahússins.
Um var að ræða netkönnun til rúmlega 1550 manns, 18 ára og eldri sem búsettir eru á svæðinu frá Austur-Húnavatnssýslu í vestri til Djúpavogs í austri (í póstnúmerum 540-765). Svarhlutfall var 73,7% sem telst mjög gott.
Heilt yfir voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar fyrir sjúkrahúsið og voru það 90% þátttakenda sem bera mikið traust til stofnunarinnar, einungis Landhelgisgæslan mælist með hærra traust í könnunum Gallup. Ríflega 54% þátttakenda hafði nýtt sér þjónustu sjúkrahússins á sl. 12 mánuðum og voru 92,6% ánægð með þjónustu sjúkrahússins. Helsta ástæða þess tengdist góðri þjónusta, viðmóti og fagmennsku starfsfólks. Helsti þáttur óánægju tengdist löngum biðtíma eftir þjónustu.
Frekari upplýsingar má finna í niðurstöðum könnunarinnar með því að smella á tengilinn.
Sjúkrahúsið á Akureyri: traust og þjónusta – nóvember 2017-janúar 2018
UMMÆLI