Það var fjölmennt og mikið fjör hjá píludeild Þórs fimmtudagskvöldið 17.október þegar skemmtimót kvenna var haldið í tilefni af bleikum október. Þetta kemur fram á vef Þórs.
Alls voru 42 konur skráðar til leiks og spilaður tvímenningur. Sigurvegarar í A keppni voru Ólöf Heiða og Kristín Auðunsdóttir. Í drottningarbikarnum voru það Svala og Lydía sem unnu þann virðulega bikar.
Allt þátttökugjald á mótinu rann óskipt til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, KAON.
„Segja má að allar sem tóku þátt, píludeildin og ekki síst Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hafi verið sigurvegarar kvöldsins því þátttökugjaldið rann óskipt til Krabbameinsfélagsins,“ segir í tilkynningu Þórs.
Píludeildin hefur núna í nokkurn tíma staðið fyrir kvennakvöldum í pílukastinu þar sem konum gefst kostur á að koma og prófa. Hægt er að fá lánaðar pílur og fá leiðsögn hjá vönu pílufólki. Kvennakvöldin eru annanhvern þriðjudag, næst kvennakvöld verður 5. nóvember.
Mynd: Sigurvegarar kvennamótsins, Ólöf Heiða og Kristín. /thorsport.is
UMMÆLI