NTC

Miðbærinn fyrir fólkið

Það er fallegur sumardagur á Akureyri og mannlífið blómstrar sem aldrei fyrr. Þeir sem vilja njóta góða veðursins streyma nú í miðbæinn, fólk situr fyrir utan kaffihús, sleikir sólina á Ráðhústorgi og brosandi börn borða ís af bestu lyst. Bílar og mengunin sem fylgir þeim er hvergi nærri, enda er þessi miðbær fyrir fólkið en ekki bíla. Þar sem áður voru bílastæði á besta stað í miðbænum standa nú nýjar glæsilegar byggingar með margskonar verslun og þjónustu. Þurfi einhver að ferðast á bíl í miðbæinn eru til staðar bílastæðakjallarar- og hús þar sem hægt er að leggja bílnum. Hof, menningarhús okkar Akureyringa og nærsveitunga er nú betur tengt við miðbæjinn með gönguleiðum yfir Glerárgötu sem nú er einföld, frá Torfunesbryggju að gatnamótum Glerár- og Gránufélagsgötu. Norðan við ráðhúsið stendur glæsileg samgöngumiðstöð þar sem innanbæjar strætisvagnar sem og þeir sem koma utan af landi staldra við áður en för þeirra er haldið áfram. Varanlegt hættuástand við Strandgötu þar sem utanbæjarstrætó stoppaði áður fyrir framan Hof, er því ekki lengur til staðar.

Einkabíll mætir afgangi

Þessa framtíðarsýn sem finna má í aðalskipulagi Akureyrarbæjar sem samþykkt var 2014 finnst greinarhöfundi afskaplega aðlaðandi. Á ferðalögum sínum erlendis finnur hann oft fyrir öfund þegar hann heimsækir miðbæi og miðborgir þar sem fólk hefur verið sett í fyrsta sæti, eins og gert er á skipulagi þessu. Einkabíllinn er látinn mæta afgangi og stæði hafa verið fundin fyrir hann í bílastæðahúsum á heppilegri stöðum og bílakjöllurum neðanjarðar sem eru oft vel fallnir til þess að bæjarmyndin njóti sín sem best og verði sem fegurst. Á þessum stöðum eru almenningssamgöngur gjarnan í fyrirrúmi.

Heilsan dýrmætust

Hér er einnig horfst í augu við staðreyndir. Mengun frá bílum er beinlínis skaðleg og er einn af þeim þáttum sem valda hlýnun jarðar með ófyrirséðum afleiðingum. Það ætti því að vera forgangsmál að minnka bílaumferð verulega á næstu árum og auka vægi almennings- og annarra vistvænna samgangna hér á Akureyri. Sem dæmi má nefna að víða erlendis hefur umferð bifreiða sem ganga fyrir díselolíu verið takmörkuð verulega og sumsstaðar einfaldlega bönnuð í miðborgum- og bæjum. Akureyri ætti ekki að vera nein undantekning á því. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og því verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess vernda hana. Það gerum við ekki með því að anda að okkur hættumlegum útblæstri frá bílum, meðan við röltum um miðbæinn okkar, njótum útsýnisins og þess að vera til í blómlegum miðbæ með fjölbreyttum verslunum, veitingastöðum og afþreyingarmöguleikum. Það er fólkið sem skapar miðbæinn, ekki bíllinn.

Vistvæn framtíðarsýn

Samfylkingin á Akureyri vill halda þessari framtíðarsýn til streitu og gera miðbæ okkar Akureyringa vistvænni og fyrir okkur fólkið, en ekki bíla. Höfum það hugfast þegar við mætum á kjörstað þann 26. maí næstkomandi á Akureyri og kjósum Samfylkinguna.

Höfundur er Orri Kristjánsson, háskólanemi og frambjóðandi Samfylkingarinnar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó