Alexander Veigar Þorvaldsson sigraði í einmenningi í 501 á opnu móti píludeildar Þórs, Akureyri Open, á laugardag. Brynjar Þór Bergsson og Kristján Þorsteinsson unnu keppnina í tvímenningi á föstudagskvöld.
Metþátttaka var í mótinu í ár og komust færri að en vildu. Í tvímenningi keppti 31 par, samtals 62 keppendur og spilaðir 112 leikir samtals í riðlunum, 15 leikir í útsláttarkeppnininni og 15 í keppninni um forsetabikarinn, samtals 142 leikir í tvímenningnum. Í einmenningnum á laugardag tóku 69 keppendur þátt, spilaðir voru 264 leikir í riðlakeppninni, 33 í keppninni um forsetabikarinn og 39 í aðalútsláttarkeppninni, samtals 336 leikir í einmenningi. Samtals fóru því fram 478 viðureignir á föstudagskvöld og laugardag í Akureyri Open pílumótinu.
Píludeildin lagði mikla vinnu í framkvæmd og umgjörð mótsins og til að mynda voru keppendur í úrslitaviðureign í einmenningi og í úrslitaviðureign um forsetabikarinn kynntir inn með inngöngulögum eins og á stærstu mótum. Keppendur frá píludeild Þórs unnu til nokkurra verðlauna á mótinu, en aðkomumenn unnu aðalkeppnina, bæði í einmenningi og tvímenningi.
Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, var virkilega ánægður með mótið.
„Mótið gekk virkilega vel fyrir sig og var mikil ánægja meðal keppenda með mótið í heild sinni. Mikill fjöldi keppenda var í aðstöðunni alla helgina og er það alveg frábært hversu vel heppnaðist. Eðlilega var stundum smá bið á milli leikja en mótsstjórar reyndu sitt besta til að halda mótinu fljótandi. Við þökkum öllum þeim sem lögðu land undir fót og gerðu sér ferð til okkar. Einnig viljum við þakka okkar meðlimum og sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og gerðu mótið jafn glæsilegt og það var. Við hlökkum til að halda Akureyri Open á næsta ári og gera mótið ennþá stærra og glæsilegra,“ segir Davíð Örn í samtali við heimasíðu Þórs. Davíð komst sjálfur í undanúrslit í keppni í tvímenningnum á föstudagskvöldið.
UMMÆLI