Metnaðarfullt menningarverkefni framhaldsskólanema

Söngkeppnin Tónkvíslin hefur skapað sér sess sem einn metnaðarfyllsti menningarviðburður Norðulands og þar má þakka elju og dugnaði framhaldsskólanema.

Þann 17.mars næstkomandi verður Tónkvíslin haldin í þrettánda sinn í íþróttahúsi Framhaldsskólans að Laugum, þar sem söngvarar munu etja kappi um Tónkvíslina, verðlaunagrip keppninnar. Auk þess fær sigurvegari rétt til þess að taka þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna nú í vor. Viðburðurinn er gríðarlega metnaðarfullt verkefni framhaldsskólanema, er sjá alfarið um framkvæmd og undirbúning.

Átján nemendur skipa framkvæmdarstjórn og situr Gabríel Ingimarsson, sem hefur setið í framkvæmdarstjórn síðastliðin þrjú ár, í sæti framkvæmdarstjóra. Framkvæmdarstjórn ber ábyrgð á fjáröflun, skipulagi, markaðssetningu og að halda utan um svo til gerða verkhópa skipaða af nemendum. Allt er unnið í sjálfboðavinnu, en þeir sem óska eftir því geta fengið verkefni sín metin til eininga. Þeir nemendur sem kjósa að taka þátt skapa sér því mikilvægan sess innan viðburðarins og öðlast þar ómetanlega reynslu.

Stærri umgjörð en undanfarin ár

Tónkvíslin hóf göngu sína sem framhaldskólasöngkeppni árið 2006, en hefur nú stækkað umgjörðina og eiga nemendur í efstu bekkjum grunnskóla auk framhaldsskólanema, tækifæri til að taka þátt. Ekki er skilyrði að keppendur gangi í skóla að Laugum, en söngfuglar frá Þingeyjarsveit, Norðurþingi, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhrepp og Skútustaðarhreppur hafa tækifæri til þátttöku og veitt eru verðlaun bæði í grunnskólaflokk og framhaldsskólaflokk.

Að þessu sinni munu 20 atriði taka þátt og var í fyrsta sinn í ár haldin undankeppni þar sem aðsóknin var gríðarleg. Gabríel segir þessa keppni vera þá stærstu til þessa þar sem áður hefur nánast þurft að hvetja til þátttöku en að þessu sinni var barist um plássin innan aðalkeppninnar.

Í beinni

Árin 2015 og 2016 var keppnin sýnd í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni BRAVÓ, en í fyrra tók N4 við keflinu og mun sýna beint frá Tónkvíslinni í ár með um það bil 700 manns í salnum. Nemendurnir sjálfir munu hinsvegar einnig stíga bakvið myndavélarnar og taka upp viðburðinn auk þess sem myndefni fer í strangt eftirvinnsluferli þar sem lokaútkoman mun vera aðgengileg á samfélagsmiðlum. Tækjabúnaður er allur fyrsta flokks, með aðkomu frá Exton sem sér um hljóðbúnað og ljósabúnað og tökubúnaði frá Kukl. Dómnefndina skipa fagfólk úr tónlistarbransanum og mun Helgi Björnsson sjá um skemmtiatriði. Keppnin er því klædd fagfólki og hæfileikaríkum nemendum sem hjálpast að við að láta Tónkvíslina verða að veruleika.

Veronika Rut

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó