Metnaðarfull leiksýning í Hlöðunni

Metnaðarfull leiksýning í Hlöðunni

Leiksýningin Halastjarna verður frumsýnd 30. júlí í Hlöðunni, Litla-Garði við Akureyri. Verkið er leiksýning með tveimur leikurum og öflugu sjónarspili með aðstoð myndbanda og lýsingar. Efnistök verksins eru bergmálshellir internetsins, félagsleg einangrun í nútíma tæknisamfélagi, stöðu þörft manneskjunnar til að öðlast viðurkenningu og hugmyndir sem æða stjórnlausar áfram.

Verkið, Halastjarna, fékk styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Launasjóði listamanna.  Að sýningunni koma leikararnir og hjónin Einar Aðalsteinsson og Anna Gunndís Guðmundsdóttir, þau kynntust á Akureyri fyrir um 10 árum þegar þau léku bæði hjá Leikfélagi Akureyrar. Leikstjórinn er Anna María Tómasdóttir, hún leikstýrði til dæmis The Last Kvöldmáltíð sem fékk fjórar tilnefningar á Grímunni og hún vann að kvikmyndinni Dýrinu, sem vann frumleikaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes í síðustu viku. Tónskáldið er Birna Eyfjörð, sem hefur undanfarið starfað með kvikmyndatónskáldinu Atla Örvarssyni. Þóroddur Ingvarsson er tæknistjóri og ljósahönnuður, hann er Akureyringur og hefur margra ára reynslu meðal annars sem tæknistjóri hjá Menningarfélagi Akureyrar. Hrönn Blöndal Birgisdóttir sem er einnig að norðan sér um leikmynd, búninga og markaðsmál. 

Tvö af megin-rannsóknarefnum sýningarinnar eru einangrun og áhrif samfélafsmiðla á venjulegt fólk á viðkvæmum tímum. Hefur markmið internetsins náð að verða sín eigin andhverfa? Er hið öflua og ávanabindandi sameiningartól í raun á góðri leið með að sundra okkur og einangra frekar, í nafni stafrænna tenginga? Getur hið alræmda like-hagkerfi fengið fólk til að gera hvað sem er þegar verðlaunin eru almenn viðurkenning?

Efni sýningarinnar er unnið upp úr textum breska leikskáldsins Kierans Knowles, sem er eitt af eftirtektarverðustu ungu leikskáldum Breglands um þessar mundir. Verkið er styrkt af launasjóði listamanna og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Fjöldatakmörkunum verður fylgt á sýningunni og einungis verður selt í 35 sæti til þess að passa upp á sóttvarnir.

UMMÆLI